Skoðun

Nýtum tækifærið

Magnús Orri Schram skrifar
Stjórnmálamenn sem virða ekki hlutverk sitt, og sýna almenningi hroka og yfirlæti; tilheyra stjórnmálum gærdagsins. 22 þúsund manns á Austurvelli gáfu skýr skilaboð. Fólk vill breytingar. Hávær mótmæli almennings voru þverpólitísk og það væri mikil einföldun að túlka þau út frá hefðbundnum flokkadráttum eða reyna að eigna sér þau með einhverjum hætti. Mótmælin voru ákall um heiðarleika og traust og fólu í sér andúð á siðrofinu.

Það er því ekki valkostur fyrir stjórnmálaflokka að mæta til leiks án verulegra breytinga á því hvernig þeir stunda sína pólitík. Fólkið er að kalla eftir nýrri stjórnmálamenningu og hvernig stjórnmálamenn umgangast vald. Fólk vill auðmýkt og heiðarleika, siðferðislega endurreisn stjórnmála og samfélags. Að unnið sé fyrir almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum. Að verkefnið skipti máli, en ekki egóið, flokkurinn eða klíkan. Nú þarf að leggja af klækjastjórnmál. Gera breytingar á vinnulagi og talsmáta, tala öðruvísi og vinna öðruvísi. Nú þarf að siðvæða íslensk stjórnmál.

Hér getur ný stjórnarskrá markað upphafið. Hún er táknrænn samfélagssáttmáli, ritaður af fólkinu og setur ramma um stjórnmálin. Þar er t.d. tekið á mikilvægi opinna gagna, sannleiksskyldu ráðherra, ábyrgð ráðherra, mannréttindum, sjálfstæði dómskerfisins, og hagsmunaskráningu og vanhæfi þingmanna. Um leið opnar hún fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur og virkara lýðræði, enda er það úrelt fyrirkomulag að þjóðin komi aðeins að ákvarðanatöku á fjögurra ára fresti. Þess á milli geti stjórnmálamenn hagað sér að vild. Þar hefur fulltrúalýðræðið ekki staðist tímans tönn. Þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá.

Nú kemur í ljós hvort stjórnmálamenn ætla að mæta kalli tímans. Mæta almenningi af heiðarleika og auðmýkt. Nálgast vald á nýjan hátt en áður. Breyta vinnulagi og talsmáta. Vinna fyrir opnum tjöldum og setja hagsmuni almennings ofar persónulegum metnaði eða flokkshollustu. Annars eru þeir ekki að mæta kalli tímans.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×