Skoðun

Pólitískir afleikir Sigmundar Davíðs

Jóhann Már Helgason skrifar
Stjórnmál eru verulega skrítinn starfsvettvangur, um það verður ekki deilt. Fréttaflutningur af aflandsfélögum forsætisráðherra náði hámarki þegar Kastljós sýndi ítarlegan fréttaskýringaþátt sem var að mestu leyti gerður með aðstoð Reykjavík Media og annarra fjölmiðla um allan heim. Viðbrögð samfélagsins voru sterk, mótmæli voru strax boðuð í kjölfarið þar sem metfjöldi mætti á Austurvöll. Mikill múgæsingur gerði vart við sig á samfélagsmiðlum þar sem fólk ýmist kepptist um að vera hnyttnasti tístarinn á twitter eða sá virkasti í athugasemdum á Facebook. Þessi viðbrögð eru að mörgu leyti skiljanleg því það er ekki á hverjum degi sem forsætisráðherra íslenska lýðveldisins er stillt upp við hlið Assad sýrlandsforseta og Vladimirs Putin Rússlandsforseta. 

Í þessum pistli verður ekki lagt mat á þau mistök sem Sigmundur gerði fyrir nokkrum árum þegar hann ákvað að tilgreina ekki umræddar eignir í hugsmunaskrá þingmanna eða yfir höfuð greina frá því að hann ætti eignir í gegnum konuna sína í skattaskjóli. Þvert á móti verður skoðað hvernig hann hefði geta brugðist betur við eftir að málið kom fyrst fram. 

Eftir hið fræga viðtal hjá Reykjavík Media þann 11. mars sl., sem endar með því að forsætisráðherrann gengur út úr viðtalinu, hefur Sigmundur framið hvert pólitíska sjálfsmorðið á fætur öðru. Tímalínan á þeirri atburðarrás er einhvernveginn svona:

15. mars (fjórum dögum eftir viðtalið fræga) birtir eiginkona Sigmundar færslu um fjármál sín á Facebook þar sem hún staðfestir að hún eigi erlent félag sem heldur utan um fjölskylduarf hennar. Félagið hafi frá upphafi greitt alla skatta á Íslandi og aldrei fjárfest í íslenskum fyrirtækjum frá því að Sigmundur Davíð byrjaði í stjórnmálum. Hún endar færsluna á að biðja fólk um að „gefa Gróu á leiti smá frí“, eins og hún orðaði það. 

18. mars birtir svo Sigmundur færslu á heimasíðu sinni sem fjallar að mestu leyti um þá staðreynd að kona hans sé ekki hrægammur eða tengd hrægammasjóðum. Hann talar líka um að hafa skammast sín fyrir að detta í hug að nota fjárhagslegt tap konunnar í kosningabaráttu osfrv.

24. mars – Sigmundur fer í viðtal í Fréttablaðinu þar sem hann leggur allt kapp á að ítreka að Wintris hafi aldrei verið falið og fráleitt sé að nota orðið skattaskjól, þar sem skattar félagsins séu greiddir á Íslandi. Ekkert ólöglegt eigi sér stað.

27. mars (Páskadagur), langur pistill birtist á heimasíðu Sigmundar undir yfirskriftinni Hvað snýr upp og hvað niður þar sem hann reynir að svara flestum þeim vangaveltum sem fram hafa komið í fjölmiðlum dagana áður um aflandsfélagið Wintris. Sama dag fer Sigmundur í viðtal hjá Sigurjóni M. Egilssyni í þættinum Sprengisandi og lýsir því m.a. yfir að staða hans hefði aldrei verið sterkari og óttaðist ekki vantrausttillögu. 

3. apríl sama dag og Kastljós þátturinn er sýndur á RÚV birtist svo enn einn pistillinn á heimasíðu Sigmundar. Sá pistill ber nafnið Stóra myndin þar sem Sigmundur rekur enn og aftur sín rök í málinu og eyðir svo töluverðu púðri í tala um Sigrúnu Davíðsdóttur fréttaritar RÚV og hennar störf í kringum Icesave málið og útrásina svokölluðu. 

Hvergi í öllum þessum greinum, færslum og viðtölum er minnst einu orði á þetta fræga viðtal sem forsætisráðherra var beinlínis staðinn að því að segja ósatt og leit vægast sagt illa út. Viðtal sem kom honum sjálfum og Íslandi öllu í heimspressuna, á röngum forsendum. Það eitt og sér er óskiljanlegt og fær mann til að efast um þá ráðgjafa sem standa forsætisráðherranum næst. 

Hvað hefði forsætisráðherrann átt að gera?

Sigmundur Davíð hefði átt að bóka sig strax í annað viðtal þann 12. mars hjá Kastljósi RÚV (eða einhverjum öðrum miðli) og leggja ÖLL spilin á borðið, segja nákvæmlega frá sinni hlið á málinu og biðjast svo innilega afsökunar á því að hafa ekki tilgreint um aflandseignirnar á þeim stöðum sem það var við hæfi. Hann hefði átt að sýna auðmýkt og tækla vandamálið að fyrra bragði, þannig hefði hann að minnsta kosti komist hjá því að öll þjóðin fengi vægt taugaáfall á sama tíma sl. sunnudag. Mögulega hefði hann sjálfur haft betri stjórn á umræðunni og búið þjóðina undir hið margnefnda viðtal. Það er nefnilega fátt verra en að þurfa að afsaka sama málið aftur og aftur því nýjar upplýsingar eru sífellt að birtast, það gerir málið stærra og verra. Sigmundur féll í þá gryfju, að segja bara hálfan sannleikann, hann hefði bara átt að sýna heiðarleika og undirbúa þjóð sína undir þann storm sem var í vændum - hann gerði hið þveröfuga og fór í felu- og blekkingarleik. 

Verðtryggð íslensk króna; „sterkasti og stöðugasti gjaldmiðil heims“

Sigmundur Davíð hefur sagt það opinberlega að íslenska krónan sé sterkasti og stöðugasti gjaldmiðill í heiminum, í raun má segja að hann hafi byggt sinn pólitíska feril mikið á því að taka stöðu með krónunni – sem gerir málið ennþá verra fyrir hann. 



Forsætisráðherrann hefur þannig tönglast mikið á því að ekkert ólöglegt hafi átt sér stað í Wintris málinu, líklega er það alveg rétt enda eru fáir ef nokkrir, sem halda slíku fram. Það sem svíður kannski mest í þessu er sú hræsni að Sigmundur Davíð og fjölskylda skulu kjósa það að eiga aflandsfélag yfir höfuð. Ef það er satt að eiginkona Sigmundar hafi ekki ætlað að komast hjá því að borga skatt á Íslandi (sem hún hefur sýnt fram á), þá eru einu tvær ástæðurnar fyrir aflandsfélaginu annars vegar að fela félagið og hins vegar að halda henni utan krónuáhættunnar. Ergo, stærsti aðdáandi íslensku krónunnar geymir umtalsverð auðævi sín í öðrum gjaldmiðli. Þetta er hræsni og gerir hann ótrúverðugan, þrátt fyrir að hann hafi barist hart gegn kröfuhöfunum.

Næstu skref?

Það verður ekki annað sagt um Sigmund Davíð Gunnlaugsson að hann er undarlegur forsætisráðherra. Hann vann gríðarlegan kosningasigur út á kosningloforð um skuldaleiðréttingu og harðrar afstöðu til kröfuhafa bankanna. Hann hefur að mestu leyti efnt þessi loforð, og í grófum dráttum staðið við stóru orðin. Efnhagslegur bati Íslands er eftirtektarverður og menn eru bjartsýnir með endanlegt afnám gjaldeyrishafta. Í raun ætti öll rökhyggja að segja manni að Sigmundur Davíð væri vinsæll forsætisráðherra og orðheldinn. Svo er ekki, hann hefur verið í sífelldu stríði við umræðuna og hina ýmsu fjölmiðla sem hann telur ósanngjarna gagnvart sér, í því samhengi muna flestir eftir frægu viðtali við Gísla Martein Baldursson. Hann hélt afar illa á spilunum í kringum ESB-málið og hefur tekið upp á því að sýna skipulagsmálum Reykjavíkurborgar alltof mikla athygli og nú síðast hefur hann átt í afar skrautlegri ritdeilu við Kára Stefánsson. Sigmundi hefur verið líkt við fíl í postulínsbúð í starfi sínu sem forsætisráðherra og er það ekki slæm samlíking – hann hefur verið afar klaufskur, sérstaklega í mannlegum samskiptum.

Viðbrögð hans við Wintris málinu hafa svo einfaldlega verið á þann veg að hann muni mæta pólitískum örlögum sínum í næstu kosningum, eftir u.þ.b. eitt ár og ætli sér að klára kjörtímabilið. Þetta er hroki. Líklega yrði það síðasti banabiti Sigmundar ef hann heldur áfram á þeirri braut því erfitt er að sjá Sjálfstæðisflokkinn sætta sig málið í heild sinni. Eini möguleiki Sigmundar Davíðs til að halda áfram í stjórnmálum með einhverri reisn er að rjúfa þing og boða til kosninga. Í aðdraganda nýrra kosninga gæti hann talað fyrir þeim málum sem hann hefur gert vel og athugað hvort almenningur sé til í að fyrirgefa honum þessi mistök og veita honum áframhaldandi umboð.




Skoðun

Sjá meira


×