Innlent

„Mögulega um refsiverð athæfi að ræða“

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Bryndís Kristjánsdóttir úr kvöldfréttum Stöðvar 2.
Bryndís Kristjánsdóttir úr kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Stöð 2
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri að þau gögn sem keypt voru í fyrra séu af svipuðum grunni og þau sem lekið var frá Mossack Fonseca.

„Það virðist þó vera að þarna séu að öllum líkindum fleiri félög en við höfum upplýsingar um og að einhverju leyti ríkari gögn en við höfðum undir höndum,“ sagði hún í viðtalinu.

Bryndís má ekki tjá sig um mál einstakra aðila og gat því ekki svarað fréttakonu hvort þau mál sem þar hefðu komið upp tengdust þeim þremur ráðherrum sem hafa verið nefndir sem eigendur aflandsfélaga.

Einnig neitaði hún að tjá sig um það hvort viðskipti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og eiginkonu hans, þar sem hann seldi helmingshlut sinn í Wintris til hennar á einn dollara, hefðu verið undir rannsókn.

„Hluti af þeim málum sem voru tekin út hér voru andlag rannsóknarmála. Að öðru leyti var málum vísað til ríkisskattstjóra vegna þess að það var niðurstaða greiningar þess embættis að þar væru möguleg athugunarverð skattskil. Að mögulega væru þar um refsiverð athæfi að ræða,“ sagði Bryndís en tók fram að þar væri hún ekki að vísa í neitt einstakt mál.

Aðspurð hvers vegna Ísland spili svona stórt hlutverk í lekanum svaraði hún; „Ég held að þetta sé nú af stórum hluta vegna þess hvernig umhverfið var hér árum áður og að við erum bara enn að vinna úr“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×