Skoðun

Hvað þykistu vera að reyna að segja, Ögmundur?

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar
Nú 1. apríl birti Ögmundur Jónasson grein í Fréttablaðinu um að endurnýja þurfi vinstristefnuna þar sem vinstrimenn hafi „glatað tiltrú vegna þess að sjálfir hafi þeir misst trú á eigin lausnum“. Tali nú hver fyrir sig.

Auðvitað má taka undir ýmislegt sem kemur fram í greininni, sérstaklega ef það væri ekki svona óljóst og almennt orðað. T.d. um nauðsyn þess að stofna samfélagsbanka (hvað sem það er nú), snúa við markaðsvæðingu orkufyrirtækja, hætta að rukka sjúklinga, framfylgja félagslega ábyrgri stefnu og hætta að láta glepjast af tálsýnum peningahyggjunnar, o.s.frv.

Uppgjör við fortíðina

Ef Ögmundur ætlar að lyfta sér upp fyrir froðusnakk og lýðskrum verður hann að nálgast veruleikann og svara nokkrum spurningum um það hvers vegna hann framkvæmdi á síðasta kjörtímabili stefnu sem er öndverð við það sem hann boðar nú. Hann dró hvergi af sér við að rukka sjúklinga meira en nokkru sinni fyrr, tók þátt í að færa auðstéttinni banka, tryggingafélög og fleiri fjármálastofnanir á silfurfati til að halda áfram að féfletta alþýðuna. Einkavæðing orkufyrirtækja tók kipp og tálsýnir peningahyggjunnar voru alls ráðandi hjá forystu VG.

Ögmundur verður líka að svara því af hverju hann, eins og aðrir forystumenn flokksins, skelltu skollaeyrum við málflutningi í takt við þann sem hann hefur í frammi nú. Er þetta bara stjórnarandstöðustefna og önnur í gildi þegar flokkurinn er í stjórn? Eða varð Ögmundur fyrir vitrun? Það er ekki þannig að auðstéttin sé nú eina ferðina enn að koma samfélaginu undir hæl sinn. Þannig hefur það verið lengi og óslitið, og Ögmundur er hluti af þeim hæl þegar á þarf að halda.

Hvað með veruleikann?

Ef Ögmundur ætlar að verða marktækur verður hann líka að eiga samtal við aðra, ekki síst þá sem óslitið hafa framfylgt þeirri stefnu sem hann þykist nú boða. Það er óþarfi að vera alltaf að byrja uppá nýtt þegar til er flokkur sem byggir á því besta úr sögu og reynslu verkalýðssamtaka og -flokka frá öndverðu og hefur fulla trú á eigin lausnum. Ögmundi er auðvitað frjálst að nota stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar, sérstaklega ef hann ætlar að koma henni í framkvæmd. En hún er ekki til frjálsra afnota í lýðskrumstilgangi.

Umrædd grein Ögmundar er í stíl við greinar nokkurra annarra úr VG að undanförnu. Þær bera með sér áform um að þurrka heilt kjörtímabil út úr sögunni og reyna að skapa sér róttækari ímynd eins og ekkert hafi í skorist í trausti gleymskunnar. Það getur hins vegar aldrei orðið trúverðugt. Vinstrafólk sem í sannleika vill hefja vinstristefnuna til vegs á ný verður að gera upp við sig hvort það vill á ný eyða áratug í að hnoða VG inn í ráðuneytin til þess eins að valda sömu vonbrigðum og 2009. Endurreisn vinstristefnu á Íslandi er óhugsandi án aðkomu Alþýðufylkingarinnar. Ímynd byggð á froðusnakki mun engu breyta.




Skoðun

Sjá meira


×