Erlent

Hundruð sendir aftur til Tyrklands

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Allt að fimm hundruð flóttamönnum verður snúið aftur til Tyrklands í dag eftir að hafa komið ólöglega til Grikklands.

Ástæðan er samningur Tyrklands og Evrópusambandsins sem samþykktur var í síðasta mánuði en hann kveður á um að snúa megi ólöglegum innflytjendum, sem koma frá Tyrklandi til Grikklands, aftur til baka. Gríska þingið samþykkti lög þess efnis á föstudag.

Samkvæmt samkomulaginu er ríkjum Evrópusambandsins heimilt að senda hvern þann flóttamann sem kom til ríkis ESB í gegnum Tyrkland frá 20.mars síðastliðnum aftur til Tyrklands frá og með deginum í dag. Einnig er þeim heimilt að senda úr landi flóttamenn sem ekki sóttu um hæli fyrir þessa dagsetningu.

Í morgun var því hundruð flóttamanna snúið aftur til Tyrklands eftir að hafa komið ólöglega til Grikklands. Fólkinu var ekið í rútum að ferju sem mun sigla með það til Dikili í vesturhluta Tyrklands en  búist er við að allt að fimm hundruð manns verði ferjaðir frá Grikklandi í dag.

Samkomulagið hefur verið harðlega gagnrýnt og hafa hjálparstofnanir lýst yfir þungum áhyggjum vegna lítils undirbúnings og óttast það að fólkið muni sæta slæmri meðferð í Tyrklandi. Þá hefur málinu verið mótmælt víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×