Handbolti

Aron og félagar unnu Austur-Evrópudeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron er á sínu fyrsta tímabili með Veszprém.
Aron er á sínu fyrsta tímabili með Veszprém. vísir/epa
Aron Pálmarsson og félagar hans í ungverska meistaraliðinu Veszprém urðu í dag meistarar í SEHA-deildinni í handbolta eftir 28-26 sigur á Vardar Skopje í úrslitaleik í dag.

Þetta er annað árið í röð sem Veszprém vinnur þennan titil en SEHA-deildin samanstendur af 10 bestu liðunum í Austur-Evrópu.

Úrslitahelgin í SEHA-deildinni fór fram í Varazdin í Króatíu en Veszprém tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með dramatískum sigri á Meshkov Brest eftir vítakastkeppni á föstudaginn.

Aron skoraði þrjú mörk í leiknum í dag en Momir Ilic var markahæstur í liði Veszprém með sjö mörk. Laszlo Nagy og Ivan Sliskovic komu næstir með fjögur mörk hvor.

Vardar byrjaði leikinn af krafti eftir fjögurra mínútna leik var staðan 1-4, makedónska liðinu í vil. Veszprém vann sig þó fljótlega inn í leikinn og munurinn í hálfleik var aðeins eitt mark, 14-15.

Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en Ungverjarnir tryggðu sér sigurinn með því að skora þrjú af síðustu fjórum mörkum leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×