Handbolti

Geir: Fyrri hálfleikurinn gerði okkur erfitt fyrir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir stýrði íslenska landsliðinu í fyrsta sinn í Þrándheimi í dag.
Geir stýrði íslenska landsliðinu í fyrsta sinn í Þrándheimi í dag. vísir/getty
„Ég er aldrei ánægður með að tapa en það sem gerði okkur erfitt fyrir var fyrri hálfleikurinn, þá sérstaklega varnarleikurinn,“ sagði Geir Sveinsson, nýráðinn landsliðsþjálfari, eftir tapið fyrir Noregi í fyrsta leik handboltalandsliðsins undir hans stjórn í dag.

Norðmenn voru sterkari aðilinn nær allan tímann, leiddu með sex mörkum í hálfleik, 18-12, og unnu að lokum fjögurra marka sigur, 29-25.

„Við fengum of mikið af auðveldum mörkum á okkur og vorum lengi að vinna okkur út úr því. En smátt og smátt tókst okkur það og tölulega séð voru þetta kannski ekkert svo slæm úrslit. En það er margt sem þarf að laga,“ bætti Geir við.

Varnarleikur íslenska liðsins í fyrri hálfleik var afleitur enda skoruðu Norðmenn 18 mörk. Vörnin var betri í seinni hálfleik og þá hrökk Aron Rafn Eðvarðsson í gang en hann varði alls 16 skot í leiknum, eða 46& þeirra skota sem hann fékk á sig.

„Vörn og markvarsla duttu inn í seinni hálfleik,“ sagði Geir sem prófaði fjóra leikmenn í miðri íslensku vörninni. Hverjir fannst honum komast best frá því?

„Ég á eftir að skoða það betur en almennt var ég ánægður með innkomu Tandra [Más Konráðssonar] og Ólafs [Guðmundssonar]. Við náðum ekkert að æfa með þá, þeir komu bara beint inn í leikinn í dag,“ sagði Geir en Tandri og Ólafur spiluðu báðir með sínum félagsliðum í Svíþjóð í gær.

Þrátt fyrir að vörn og markvarsla hafi verið í lagi í seinni hálfleik skilaði það nánast engum hraðaupphlaupum. Ísland skoraði aðeins þrjú mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum en Noregur tíu.

„Það má taka undir það. Við hefðum mátt fá hærra hlutfall af mörkum úr hraðaupphlaupum. Við þurfum líka að vinna í sóknarleiknum. Þeir voru mjög flatir til að byrja með og kannski vantaði skotógnun fyrir utan. En svo lagaðist það,“ sagði Geir en er eitthvað sérstakt sem hann ætlar að leggja áherslu á fyrir seinni leikinn gegn Noregi á þriðjudaginn?

„Nei, við þurfum bara að vinna með það sem við erum með í höndunum,“ sagði Geir Sveinsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×