Erlent

Ósáttur við Obama vegna ummæla um frelsi fjölmiðla

Samúel Karl Ólason skrifar
Erdogan og Obama.
Erdogan og Obama. Vísir/EPA
Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, er ósáttur við ummæli Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, um frelsi fjölmiðla í Tyrklandi. Obama sagði á föstudaginn að hann hefði áhyggjur vegna aðgerða Tyrkja gegn fjölmiðlum og að hann hefði beðið Erdogan um að hefta ekki frelsi fjölmiðla.

Stjórnvöld Tyrklands hafa verið fordæmd á heimsvísu eftir að tveir blaðamenn voru kærðir fyrir landráð eftir að birta myndir af vopnasendingum til uppreisnarhópa í Sýrlandi.

Erdogan sjálfur segir hins vegar að þetta samtal hafi ekki átt sér stað. Hann er ósáttur við að Obama hafi farið á bak við sig.

„Þú getur ekki litið á móðganir og hótanir sem frelsi fjölmiðla eða gagnrýni,“ sagði Erdogan við blaðamenn í dag. Stjórnvöld í Tyrklandi hafa stöðvað rekstur dagblaða og sjónvarpsstöðva sem tengjast stjórnarandstöðunni þar í landi. Þá hafa þeir stöðvað útsendingar sjónvarpsstöðvar Kúrda og hafa sakað sjónvarpsstöðina um hryðjuverkastarfsemi.

Erdogan hefur persónulega höfðað um 1.800 dómsmál gegn blaðamönnum, einstaklingum og jafnvel börnum, sem hann hefur sakað um að móðga sig frá því hann varð forseti 2014. Minnst þrettán blaðamenn sitja nú í fangelsi vegna starfa sinna í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×