Erlent

Lögreglumaður segist hafa gengið í svefni þegar hann réðst á konu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglumaðurinn var einungis í nærbuxum.
Lögreglumaðurinn var einungis í nærbuxum. skjáskot
Lögreglumaður í New York sem réðst á konu, að því er virðist tilefnislaust, á heimili hennar í Bronx segist hafa gengið í svefni þegar hann veittist að konunni.

Árásin átti sér stað árið 2014 en lögreglumaðurinn, Eugene Donnelly, var leiddur fyrir dómara vegna málsins í síðustu viku.

Í myndbandi sem New York Post hefur undir höndum sést hvernig lögreglumaðurinn, einungis klæddur svörtum nærbuxum, yfirgefur heimili konunnar laust fyrir klukkan 6 og hleypur í átt að götunni. Því næst hleypur hann aftur inn í anddyri byggingarinnar og reynir árangurslaust að hringja dyrabjöllum.

Degi fyrir atburðarrásina hafði Donnelly fengið orðu fyrir hugrekki sitt en árið 2012 yfirbugaði hann vopnaðan mann.

Talið er að lögreglumaðurinn hafi setið að sumbli á heimili annars lögreglumanns sem bjó í byggingu konunnar.

Í samtali við New York Post segir konan að Donnelly hafi sparkað niður hurðina hjá sér og slegið hana í andlitið. Því næst hafi hann sest klofvega yfir hana og látið höggin dynja. Á meðan sagðist hann vita að skotvopn væri að finna í íbúð konunnar.

Donnelly verður leiddur fyrir dómara þann 21. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×