Erlent

Obama varar við kjarnorkuhryðjuverkum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Obama ávarpar fundinn.
Obama ávarpar fundinn. Vísir/Getty
Sú ógn sem stafar af því að hryðjuverkamenn beiti kjarnorkuvopnum í árásum sínum er raunveruleg að mati Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Þetta kom fram í ræðu Obama á leiðtogafundi um kjarnorkuöryggi sem nú stendur yfir í Washington. Segir Obama að ríki heimsins þurfi að taka höndum saman til þess að tryggja það að ISIS og önnur viðlíka hryðjuverkasamtök komist ekki yfir kjarnorkuvopn.

„Það liggur engin vafi á því að ef þessir brjálæðingar kæmu höndum sínum yfir kjarnorkuvopn myndu þeir nota þau til þess að drepa eins marga og þeir gætu,“ sagði Obama.

Hann hvatti leiðtoga heimsins til þess að tryggja það að efni sem notuð eru til þess að útbúa kjarnorkuvopn kæmist ekki í hendur hryðjuverkamanna, það væri besta leiðin til þess að koma í veg fyrir kjarnorkuhryðjuverkaárás.

Yfir 50 ríki sendu fulltrúa sína á leiðtogafundinn en athygli vakti að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, neitaði að mæta á fundinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×