Erlent

Mannréttindi raðast ólíkt eftir löndum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kona í kjörklefa í Andalúsíu á Spáni þegar kosið var þar á síðasta ári.
Kona í kjörklefa í Andalúsíu á Spáni þegar kosið var þar á síðasta ári. vísir/EPA
Áherslur á mannréttindi eru ólíkar eftir löndum, þótt meginlínurnar séu svipaðar. Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun sem breska könnunarfyrirtækið YouGov hefur birt.

Þannig líta íbúar fimm af þeim átta löndum, sem höfð voru með í könnuninni, svo á að kosningarétturinn sé mikilvægastur allra mannréttinda. Í tveimur landanna er kosningarétturinn í öðru sæti, en í Þýskalandi lenti hann í sjöunda sæti.

Meira en helmingur aðspurðra í öllum löndunum telur síðan málfrelsið til mikilvægustu mannréttinda okkar.

Næst á eftir þessum tvennum grundvallarréttindum setja aðspurðir svo ýmis félagsleg réttindi, og eru þar víðast hvar efst á blaði rétturinn til þess að njóta ókeypis heilsugæslu, ókeypis menntunar, lífs án mismununar og öryggis á götum úti.

Áherslurnar eru þó mismunandi eftir löndum. Þannig leggja Frakkar minnsta áherslu á rétt fólks til að þurfa ekki að búa við mismunun. Hins vegar leggja Frakkar mesta áherslu allra á réttinn til að hafa atvinnu og réttinn til þess að taka þátt í mótmælaaðgerðum gegn stjórnvöldum.

Bandaríkjamenn skera sig síðan sérstaklega úr vegna hins mikla áhuga þeirra á byssum. Nærri helmingur Bandaríkjamanna, eða 46 prósent, telur réttinn til skotvopnaeignar meðal mikilvægustu mannréttinda. Í öllum hinum löndunum eru einungis fá prósent aðspurðra á því að byssueign teljist til mikilvægra mannréttinda.

Og þegar spurt var áfram, þá sögðust tíu prósent Bandaríkjamanna líta svo á að rétturinn til skotvopnaeignar væri mikilvægari en öll önnur mannréttindi.

Könnunin fór nefnilega fram í tveimur skrefum. Fyrst var settur fram listi yfir þrjátíu mannréttindi, sem tilgreind eru í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu, bandarísku réttindaskránni og bresku réttindaskránni. Fólk var síðan beðið um að velja af þessum lista allt að tíu mannréttindi, sem það teldi mikilvægust.

Í seinna skrefinu var fólk svo beðið um að tilgreina ein mannréttindi, af þeim sem það hafði valið, sem það teldi allra mikilvægust.

Niðurstaðan þar varð svipuð, en þó dálítið frábrugðin niðurstöðunni úr fyrra skrefinu: Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Frakkar, Danir og Svíar settu þar málfrelsið í efsta sæti, en Bretar töldu réttinn til ókeypis eða ódýrrar heilbrigðisþjónustu mikilvægustu réttindin.

Finnar og Norðmenn sögðu hins vegar réttinn til þess að vera laus við mismunun, á grundvelli kynferðis, þjóðernis, kynhneigðar eða annars, mikilvægastan allra réttinda.

Almennt skiptir eignarrétturinn Evrópubúa minna máli en félagsleg réttindi, en þetta er öfugt í Bandaríkjunum: Þar eru 37 prósent á því að eignarrétturinn skipti jafn miklu máli og rétturinn til ókeypis skólagöngu og ódýrrar heilbrigðisþjónustu.

Hins vegar er rúmlega þriðjungur bæði Frakka og Bandaríkjamanna sammála um að rétturinn til lágmarksskattlagningar sé meðal mikilvægustu mannréttinda.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. apríl.

Mannréttindi sem íbúar átta ríkja á Vesturlöndum telja mikilvægust
     




Fleiri fréttir

Sjá meira


×