Innlent

Leikskólastjórar viðruðu áhyggjur sínar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Leikskólabörn í Reykjavík.
Leikskólabörn í Reykjavík. Vísir/Daníel
Sviðstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar segir að tæplega 700 milljóna króna niðurskurður á sviðinu muni ekki koma niður á þjónustu við börn á leikskólum. Leikskólastjórar viðruðu áhyggjur sínar af niðurskurði sínum á fundi með sviðstjóranum í dag.

Mikil ólga er meðal leikskólastjóra í borginni út af niðurskurðinum. Í fréttum okkar í byrjun vikunnar sögðu þeir nær ómögulegt að spara jafn mikið á þessu ári og borgin vill. Búið sé að skera niður allt sem hægt sé í starfi skólanna. Þá telja margir þeirra sig þurfa að grípa til þess að senda börnin heim þegar undirmannað er vegna sparnaðar. Fulltrúar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar kölluðu leikskólastjórana á fund sinn í dag til að ræða stöðuna.

„Við höfum skilning á því að í leikskólunum sem að er þröngt stakkur sniðinn að menn hafi áhyggjur af rekstrinum. Bæði af því að afkoman var ekki nógu góð á seinasta ári og hluti af því er að færast yfir á þetta ár og eðlilegt að menn hafi miklar áhyggjur og það vorum við í raun og veru að ræða við leikskólastjórana og ræða úrlausnir og möguleika í stöðunni,“ segir Helgi Grímsson sviðstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Helgi telur ekki að niðurskurðinum fylgi að börn verði send heim þegar undirmannað er á leikskólunum. Þá telur fullvíst að hann skerði ekki þjónustu við börnin. „Þetta á ekki að koma beint við þjónustuna við börnin. Það sem við erum fyrst og fremst að hagræða á þessu ári er í kaupum á vörum og þjónustu,“ segir Helgi.

Leikskólastjórar hafa lagt til að opnunartími leikskólanna verði styttur eða sumarfrí lengt til að koma til móts við kröfur um sparnað. Helgi segir slíkt ekki koma til greina. Hann er þó sammála leikskólastjórum um að sparnaðurinn í skólunum sé kominn að þolmörkum. „Ég held að menn sjái að núna er bara gott komið og menn þurfa að sjá fram á bjartari tíma í leikskólamálum,“ segir Helgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×