Skoðun

Ferðalag Vigfúsar og Valdísar

Bolli Pétur Bollason skrifar
Ófáir eru til þegar embætti forseta kallar á. Það er augljós vorhugur í fólki og sem betur fer vill það leggja hönd á plóg. Samfélagið okkar þarfnast radda hugsjónafólks sem er með góðar fyrirætlanir, björt markmið, víðtæka reynslu og bein í nefinu. Ég hugsa af virðingu til allra frambjóðenda, þeirra sem þegar eru komnir fram, og líka þeirra sem eiga eftir að ákveða sig og koma til með að bjóða fram krafta sína.  

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur ákvað í nýliðnum marsmánuði að fara í ferðalag. Hann er lagður af stað og leiðin liggur ekki bara út á Álftanes heldur vill hann fara með þjóðinni til þeirra áfangastaða sem bjóða upp á velferð og hamingju. Vigfús Bjarni verður alls ekki einn á þessu ferðalagi því kona hans Valdís Ösp Ívarsdóttir fíknifræðingur ferðast með, ásamt börnum þeirra þrem, og mörg önnur hafa þegar þegið far, fleiri hundruð sem hvöttu fjölskylduna af stað. Greinarhöfundur er einn af þeim.

Ferðalag lýsir vel hugmyndum Vigfúsar Bjarna og Valdísar Aspar um líf og tilveru og þar á meðal um forsetakjör og þá þjónustu sem forseti veitir. Þau vilja vera samferða fólki, þau hafa sterka trú á fólki og vilja að fólki sé treyst til að taka virkan þátt í mikilvægum ákvörðunartökum er varða almannahag. Barrátta lýsir síður framboðinu, en þau Vigfús og Valdís þekkja einkum til þeirrar barráttu sem þau heyja með fólki. Dags daglega mæta þau og fylgja manneskjum sem eru að takast á við þrengingar vegna sjúkdóma og missis, hugtakið hugrekki fær þar aðra og djúpstæðari merkingu. Ég treysti þeim því mjög vel til að takast á við oft krefjandi og aðkallandi verkefni sem forsetaembættið innifelur.

Skynsemisraddir hljómuðu í viðtækjum um daginn sem voru að ræða það að  nýr forseti þyrfti helst að hafa reynslu af því að hafa kennt eða leiðbeint.  Þá var það rifjað upp að þrír síðustu forsetar hefðu allir átt þá reynslu. Eins og áður sagði fannst mér þetta skynsamleg ábending. Forseti þarf að kunna að leiðbeina bæði á gleðistundum sem sorgarstundum í lífi þjóðar.  Vigfús Bjarni hefur slíka reynslu, hann hefur verið leiðbeinandi á vegi sorgar um árabil, þjálfaður fyrirlesari um sálgæslutengd efni, þau hjón hafa m.a. unnið saman að námskeiðahaldi á því sviði.  

Vigfús Bjarni vill sem forseti beita sér fyrir mannúðarmálum og þeim gildum í lífinu sem hjálpa okkur að muna það að hótel okkar er jörðin og við erum gestir. Við höfum tilveru okkar að láni og mikilvægt að við umgöngumst hana með þeim hætti. Hann hefur sterka innsýn inn í þá grunnstoð samfélagsins sem heilbrigðiskerfið okkar er, hann lætur sér annt um þá stoð, vill stuðla að endurreisn hennar, vill tala fyrir henni ásamt málefnum barna, aldraðra og öryrkja.

Ég vil taka þátt í ferðalagi með bílstjóra sem veit hvert hann er að fara, sem veit fyrir hvað hann stendur, sem er mannþekkjari og býr yfir næmi fyrir samfélagslegum aðstæðum og þjóðfélagslegri líðan.

Þess vegna þigg ég far með þeim hjónum Vigfúsi og Valdísi!




Skoðun

Sjá meira


×