Erlent

Björgunarsveitir missa vonina í Kolkata

Samúel Karl Ólason skrifar
Um hundrað metra kafli hrundi.
Um hundrað metra kafli hrundi. Vísir/EPA
Björgunaraðilar í Kolkata í Indlandi eru að missa vonina á því að fleiri muni finnast lifandi undir stórri umferðarbrú sem hrundi þar í gær. Minnst 23 eru látnir og tugir eru særðir en unnið var í nótt að leit á fleiri eftirlifendum. Búið er að bjarga 67 undan brúnni.

Yfirmaður Almannavarna Indlands segir aðgerðir í Kolkata vera á lokastigi. Nú sé markmiðið að hreinsa brak af vettvangi og finna leifar fólks sem fórst. Engar líkur séu á því að fleiri finnist á lífi.

Ekki er vitað hve margir eru enn undir brúnni.

Smíði umferðarbrúnnar hófst árið 2009 og hefur smíðin gengið illa. Um hundrað metra stykki féll á fjölfarna götu í gær.

Atvikið náðist á upptökur úr öryggismyndavélum og hefur myndband af því verið birt í fjölmiðlum í Indlandi og víðar. Við vörum við myndefninu hér að neðan, þar sem það getur vakið óhug fólks.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×