Innlent

Alda Hrönn hafnar ásökununum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Pjetur
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hafnar þeim ásökunum um að hún hafi gerst brotleg í starfi við rannsókn á LÖKE-málinu svokallaða. Tveir sakborningar bera Öldu Hrönn þungum sökum í kæru sem lögð var fram á hendur henni í síðustu viku.

„Ég hafna þessum ásökunum, og hef margítrekað sagt það. Ég er bundin þagnarskyldu þannig að ég get ekki tjáð mig um málið að neinu leyti,“ segir Alda Hrönn í samtali við Vísi.

Sjá einnig:Krefjast þess að Alda Hrönn verði svipt embættinu

Tvímenningarnir – fyrrverandi starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins Nova og lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson, fara fram á að Alda Hrönn verði ákærð og gerð þyngsta refsing sem lög leyfa. Þá vilja þeir að hún verði svipt embætti sínu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Saka þeir hana meðal annars um ærumeiðandi aðdróttanir, rangar sakargiftir og hlutdeild í dreifingu hefndarkláms.

Snorri Magnússon .
Alda Hrönn þurfi að víkja ef málið verði rannsakað

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir Öldu Hrönn þurfa að víkja ef málið verði rannsakað. „Ef við setjum þetta í samhengi, að svona kæra kæmi fram á hendur lögreglumanni, að þá hafa dæmi sýnt það og sannað – jafnvel mun veigaminni kærur en þarna virðist vera á ferðinni, að þá yrði viðkomandi lögreglumanni vikið frá störfum,“ segir Snorri.

Aðspurður segir hann þetta tiltekna mál ekki hafa komið til kasta félagsins. Hins vegar muni það aðstoða málsaðila í málinu. „Þetta er flókið mál, vægt til orða tekið. Við verðum að skoða það í samráði við lögmann viðkomandi hvernig og mögulega hver aðkoma okkar gæti verið og ætti að vera í þessu máli. En ég hef ekki heyrt í lögmanni lögreglumannsins eftir að þessi kæra kom fram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×