Erlent

Málshöfðun blasir við Rousseff

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Yfirgnæfandi meirihluti neðri deildar þingsins vill að mál verði höfðað á hendur Rousseff.
Yfirgnæfandi meirihluti neðri deildar þingsins vill að mál verði höfðað á hendur Rousseff. Nordicphotos/AFP
Erfitt efnahagsástand og risastórt hneykslismál hafa orðið til þess að Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, virðist vera í þann mund að missa embættið.

Mikill meirihluti þingmanna í neðri deild brasilíska þjóðþingsins samþykkti á sunnudag tillögu þingnefndar um að hefja skuli mál á hendur Rousseff til embættismissis.

Í næsta mánuði kemur svo til kasta öldungadeildar þingsins, sem þarf að taka afstöðu til þess hvort hefja eigi rannsókn í málinu. Það er í hennar verkahring að rétta í málinu og hefur hún til þess 180 daga.

Einungis þarf einfaldan meirihluta í öldungadeild til að samþykkja framhaldið og almennt er talið að nokkuð öruggur meirihluti sé í deildinni fyrir því að halda áfram með málshöfðunina.

Á meðan réttarhöldin standa yfir víkur Rousseff úr embætti og Michel Temer, varaforseti hennar, tekur við á meðan. Verði hún dæmd sek missir hún embættið en Temer situr út kjörtímabilið, sem rennur út í desember 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×