Skoðun

Hamingja!

Sólveig Hlín Kristjánsdóttir skrifar
Við viljum öll vera hamingjusöm. Okkur langar að líða vel, vera glöð og ánægð. Þegar okkur líður vel þá hegðum við okkur á annan hátt en þegar okkur líður illa. Ánægt fólk er t.d. rausnarlegra, opnara fyrir nýjungum og næmara á tilfinningar annarra. Samneyti við annað fólk bætir líðan okkar meira en flest annað. Okkur líður vel þegar við tengjumst öðru fólki. Til dæmis þegar við eigum gott spjall við vini eða drekkum góðan kaffibolla með samstarfsfólkinu.

Okkur líður betur þegar við hjálpum öðrum og rannsóknir sýna að börn sem gefa með sér af sælgæti eru ánægðari með sig og glaðari en þau sem borða nammið sitt ein. Þeir sem gefa blóð finna fyrir ánægju og hlýju við blóðgjafir og þeir sem vinna sem sjálfboðaliðar eru einnig líklegri til að vera ánægðir og líða vel.

Okkur líður líka betur þegar við prófum eitthvað nýtt. Það gæti verið eitthvað sem við þorðum varla að gera áður eða eitthvað sem hafði ekki hvarflað að okkur, eins og til dæmis að prófa svifflug yfir Úlfarsfelli!

Við finnum fyrir vellíðan þegar við gerum eitthvað til að gleðja aðra, upplifum eitthvað nýtt og náum að tengjast öðru fólki. Því er svo mikilvægt að muna eftir því að við erum öll fólk, mismunandi og oft mjög frábrugðin hvort öðru en það veitir okkur líka vellíðan að tengjast ólíku fólki.

Um leið og við hættum að hugsa um aðrar manneskjur sem fólk, rétt eins og okkur sjálf, aukast líkurnar á því að við förum að hegða okkur ómanneskjulega gagnvart þeim. Og það bitnar ekki bara á þeirra líðan heldur líka okkar eigin. Við verðum því að vera á varðbergi þegar fólki er skipt upp í ólíka hópa og kerfisbundið reynt að gera lítið úr mennsku þeirra sem eru ólíkari okkur. Það elur á hræðslu, vanlíðan og stundum ofbeldi.

Við viljum öll vera hamingjusöm og við viljum að okkur líði vel. Til að það takist er farsælast að vera opin fyrir nýjungum og vera í samneyti við annað fólk… alls konar fólk.




Skoðun

Sjá meira


×