Skoðun

Dagur raddar: Hvers vegna að ógna atvinnuöryggi fólks með fáfræði ?

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir skrifar
Fjöldi fólks á allt sitt atvinnuöryggi undir því að röddin bregðist því ekki eins og kennarar, prestar, sálfræðingar, fréttamenn, sölumenn og þingmenn. Það er því kjörið tækifæri í tilefni af degi raddar, 16. apríl, að minna á það ófremdarástand sem ríkir í raddverndarmálum hér á landi. Enn sem komið er hefur röddin ekki verið viðurkennd sem atvinnutæki og nýtur því engrar verndar. Ástæðan? Trúlega almennt þekkingarleysi um rödd eða miklu frekar um getu og takmörk raddfæra.

Vitaskuld er hægt að ganga fram af raddböndum eins og hverjum öðrum líffærum, og það án þess að gera sér grein fyrir því. Þannig er hægt að setja raddgæði í uppnám með því að öskra, spenna rödd upp í hávaða, tala í rykmettuðu umhverfi, tala í slæmri hljóðvist o.s.frv. Afleiðing? Jú, röddin getur orðið hás, rám, hástemmd eða hún brestur.

Einstaklingurinn hættir að geta sungið og þreytist við að nota röddina af minnsta tilefni. En vegna þess að röddin glymur í eigin höfði verður einstaklingurinn andvaralaus fyrir því hvernig hún berst og/eða hvernig hún fer í aðra.

Staðreyndin er hins vegar sú að skemmd rödd spillir fyrir hlustunarlöngun. Ég fyrir mína parta endist ekki við að hlusta á t.d. þingmenn eða fréttamenn ef mér hugnast röddin ekki.

Raddbeiting er tæki til að ná til hlustandans. Ef raddböndin ná ekki hreyfast eins og þeim er eðlilegt t.d. vegna stífni í vöðvum sem stjórna raddkerfinu þá glatast hæfileikinn að nota röddina markvisst.

Hvað er þingmaður án sannfæringakraftsins í röddinni?

Hvað er prestur ef rödd hans/hennar nær ekki að sefa og hughreysta?

Hvað er kennarinn ef rödd hans/hennar vekur ekki hlustunarlöngun hjá nemanda eða nær að virka sem agatæki?

Hvað er læknir ef hann/hún getur ekki beitt viðeigandi rödd við sjúkling og/eða aðstandendur eftir aðstæðum?

Það er löngu kominn tími á það að meta gildi raddar þegar hún er beinlínis leigð út í atvinnuskyni. Auk þess þarf að gera sér grein fyrir því hvernig þekkingaleysi og umhverfisþættir á vinnustað geta skemmt röddina og sett þar með í uppnám færni hennar til þess að koma því á framfæri sem henni er ætlað - að ekki sé talað um atvinnuöryggi þess sem á röddina. Það eru alltof mörg dæmi þess að fólk hafi hrökklast úr starfi vegna þess að röddin gaf sig.

Ástandið núna er svona:

Enn hefur rödd ekki verið sett inn sem þáttur í lýðheilsu.

Enn er ekki skylda að fræða þá um rödd sem ætla að stunda atvinnu sem krefst raddnotkunar. Hér má t.d. nefna kennaramenntun.

Enn eru raddskaðar sem rekja má til atvinnu ekki bótaskyldir.

Enn hefur rödd ekki verið tekin inn sem áhættuþáttur í kjarasamningum.

Enn hefur ekki verið tekið tillit til getu raddar í umhverfismati.

Enn eru hávaðamælingar í skólum ekki miðaðar við að hávaðinn sé það hár að hann geti skaðað rödd, heldur er miðað við þolmörk heyrnar. Þá er hávaðinn löngu kominn yfir þau mörk þar sem hægt er að beita töluðu orði að einhverju gagni, að ekki sé talað um þá hættu sem rödd kennarans og barnanna er sett í.

Skyldi hér vera komin einhver ástæða fyrir ófullnægjandi árangri í námi?








Skoðun

Sjá meira


×