Handbolti

Guðmundur: Svigrúmið til að prófa nýja leikmenn er takmarkað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handbolta, segir að það sé komið að kynslóðaskiptum í íslenska landsliðinu.

„Íslenska landsliðið er í þeirri stöðu að það þarf að fara að huga að endurnýjun,“ sagði Guðmundur í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Að sögn Guðmundar er það þó flóknara en að segja það að endurnýja íslenska liðið. Það þekkir hann af eigin raun.

„Það er alltaf þessi vítahringur sem liðið lendir í, og ég lenti í og fleiri, að það er alltaf næsta verkefni sem skiptir svo miklu máli. Menn vilja vinna Portúgala og komast inn á næsta stórmót og þá þarftu að vera með þitt sterkasta og reynslumesta lið. Þannig að svigrúmið til að prófa nýja leikmenn þar er mjög lítið og takmarkað.

„Ef það tekst, sem ég vona að gerist, þá þarftu að standa þig á mótinu til að falla ekki niður um styrkleikaflokk. Síðan er fjárhagur HSÍ oft þannig að hann tengist því að við séum inni á stórmótum. Þess vegna er þetta vítahringur og rosalega erfitt að komast út úr honum,“ sagði Guðmundur.

Sjá einnig: Guðmundur: Forréttindi og pressa að þjálfa eitt besta lið heims

Hann segir að lausnin felist í því að HSÍ fái meira fjármagn til að byggja upp til framtíðar. Guðmundur segir ennfremur að það séu efnilegir leikmenn í U-20 ára landsliðinu sem þurfi að fá tækifæri til að vaxa og dafna.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan. Hér fyrir neðan má svo hlusta á viðtal við Guðmund í útvarpsþættinum Akraborginni á X-inu.


Tengdar fréttir

Gummi Gumm kom Dönum á Ólympíuleikana

Danska landsliðið í handknattleik tryggði sér farseðilinn á Ólympíuleikana í Ríó um helgina en liðið vann landslið Barein, 26-24, í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×