Skoðun

Forritun – áhrif á hugræna getu og færni barna

Rakel Sölvadóttir skrifar
Börn í dag eru talin vera með gott tölvulæsi, þau geta spilað leiki, vafrað um á netinu og vita hvernig allt virkar en fá geta búið til sína eigin leiki eða eigin forrit. Það er eins og þau geti lesið en ekki skrifað. Eitt af því sem börn gera best er að læra tungumál og því ættu þau að vera mjög móttækileg og fljót að tileinka sér forritunarmál þar sem forritun er í raun bara samskipti milli manns og tölvu á því tungumáli sem báðir skilja. Seymor Papert talaði um að tölvur væru notaðar til að forrita börn með þeirri notkun sem tíðkast almennt í dag. Papert var einn af stofnendum forritunarmálsins Logo og einn af frumkvöðlum þess að nota forritun til að efla vitsmuni barna. Hann byggði hugmyndir sínar á kenningum Piagets og taldi að „Piagetian-lærdómur“, að læra án þess að vera kennt, væri vænlegastur til árangurs. En hvað hafa rannsóknir sýnt fram á í þessum efnum? Hvaða áhrif getur forritunarkennsla haft á hugrænan þroska og getu barna?

Rökhugsun og verkefnaúrlausn

Það sem gerir forritunarkennslu áhugaverða er að hún krefur nemendur um að finna lausn á vandamálum og setja hugmyndir sínar fram á skipulagðan hátt til þess að miðla þeim rétt til tölvunnar. Sýnt hefur verið fram á að með þessum hætti þjálfar forritun nemendur í rökhugsun sem hægt er að hagnýta síðar til lausnar á vandamálum sem koma upp í daglegu lífi. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að forritun eflir hugræna færni til muna jafnframt því að félagsskilningur eykst sem leiðir til þess að nemendur eru líklegri til að vinna í sameiginlegum lausnum á vandamála.

Að þekkja eigin hugsun og setja sig í spor annarra

Sýnt hefur verið fram á að með því að forrita tölvuna til að gera það sem börnin vilja þá þurfa þau að setja sig í sporin sjálf og hugsa út í hvernig þau myndu sjálf leysa verkefnið og þá endurspegla sína eigin hugsun.

Sköpunargáfa og tilfinningaviðbrögð

Rannsóknir hafa sýnt fram á að forritunarkennsla hefur jákvæð áhrif á sköpunargáfu og tilfinningaviðbrögð hjá börnum með námsörðugleika ásamt því að hafa verið tengd við myndun þekkingar á afmörkuðum sviðum sem og aukið hugræna og félagslega færni.




Skoðun

Sjá meira


×