Fótbolti

Björn Daníel er hærri en bæði Eiður Smári og Hannes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Daníel Sverrisson.
Björn Daníel Sverrisson. Vísir/Getty
Björn Daníel Sverrisson er með hæstu meðaleinkunnina hjá Verdens Gang af íslenskum leikmönnum sem spila í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta en fjórar umferðir eru nú að baki.

Björn Daníel Sverrisson spilar með liði Viking sem er í sjötta sæti deildarinnar og hefur hann fengið 5,75 í meðaleinkunn sem skilar honum upp í sæti 9 til 16 á topplista VG.

Björn Daníel er efstur þrátt fyrir að hafa aðeins fengið fjóra í einkunn í síðasta leik en hann var valinn besti maður vallarins í fyrstu þremur leikjunum.

Tveir Íslandsvinir eru í hópi þeirra átta sem eru með hæstu meðaleinkunnina en það eru þeir André Hansen, markvörður Rosenborg og fyrrum leikmaður KR og svo Babacar Sarr, miðjumaður Sogndal og fyrrum leikmaður Selfoss.

Eiður Smári Guðjohnsen hjá Molde og Hannes Þór Halldórsson hjá Bodø/Glimt koma næstir Birni Daníel af íslensku leikmönnunum en þeir eru í 20. til 33. sæti með 5,50 í meðaleinkunni. Eiður Smári hefur komið með beinum hætti að þremur mörkum ( eitt mark og tvær stoðsendingar) í síðustu tveimur leikjum Molde.

Hólmar Örn Eyjólfsson hjá Rosenborg er síðan í 34. til 41. sæti en Rosenborg-liðið er í efsta sæti deildarinnar og hefur aðeins fengið á sig eitt mark í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Fimmti hæsti Íslendingurinn á þessum lista er síðan Guðmundur Kristjánsson hjá Start en hann er í 42. til  57. sæti með 5,25 í meðaleinkunni.  Það er hægt að sjá allan topplistann hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×