Skoðun

Hefur óvissa í stjórnmálum áhrif á íbúðaverð í Breiðholti?

Sigríður Hrund Guðmundsdóttir skrifar
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkar áfram enda eru lykilstærðir mjög jákvæðar og benda til áframhaldandi hækkana. En hvað er það sem drífur fasteignaverð áfram? Í grunninn er það fólksfjölgun og launaþróun. Við þetta bætast svo bætt aðgengi að lánsfé, lægri vextir og bætt skuldastaða heimilanna. Búist er við áframhaldandi aukningu kaupmáttar en það er einfaldlega ekki verið að byggja nóg af íbúðum til að anna eftirspurn, því þjóðinni fjölgar og við erum farin að flytja inn vinnuafl aftur. Síðustu ár hefur byggingaiðnaðurinn verið að taka við sér en hefur samt meira einbeitt sér að hótelbyggingum, þar sem ferðamannafjöldinn vex á stjarnfræðilegum hraða. Þetta ýtir enn frekar undir hækkun fasteignaverðs.

Við þessar aðstæður hefur verð á fasteignum í miðbæ hækkað langt umfram það sem við höfum séð áður. Fyrir 20 árum var verðmunur ekki svo ýkja mikill milli hverfa en raunin er allt önnur í dag þar sem mun eftirsóknarverðara er að búa í miðbæ og staðsetning skiptir verulega máli, ekki síst vegna leigu til ferðamanna. Loksins erum við farin að sjá verðhækkanir smitast út í úthverfin en þau hafa setið verulega eftir síðustu misseri. Það geta ekki allir né vilja búa í miðbænum.

Nú eru væringar í stjórnmálum. Hvaða áhrif getur það haft á þróun fasteignaverðs ef við tekur uppstokkun í stjórnarliðinu? Opinber inngrip sem skapa ójafnvægi á húsnæðismarkaði gætu haft verulegar afleiðingar eins og skattaumgjörð og bótakerfi. Það er freistandi að hækka bætur og styrki til íbúðarkaupa eða leigutaka, en hættan er að það muni í raun ekki hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á því að halda, heldur þvert á móti hækka fasteignaverð og kynda undir verðbólgu. Sögulega hefur fasteignaverð þó hækkað umfram verðbólgu til lengri tíma litið. Það er einhvern veginn svo augljóst að það myndi draga úr hækkunum að gera byggingaaðilum auðveldara að byggja íbúðarhúsnæði með minni tilkostnaði. Aðrir þættir geta líka haft áhrif á fasteignaverð eins og afnám hafta, aðgerðir í ríkisfjármálum og verðbólguvæntingar. Útkoman úr næstu kosningum getur því haft veruleg áhrif á þróun fasteignaverðs, t.d. í Breiðholti.




Skoðun

Sjá meira


×