Skoðun

Erasmus Student Network á Íslandi

Sigurjón Arnórsson skrifar
Þegar ég skrifa þetta sit ég í menningar- og vísindahöllinni í Varsjá ásamt u.þ.b 1000 háskólanemendum frá 40 mismunandi evrópskum ríkjum. Ég ásamt 5 öðrum Íslendingum tökum þátt í „The Erasmus Student Network Annual General Meeting“. Við höfum tekið þátt í 10 klukkutíma fundum og mikilvægum félagslegum atburðum. Þegar ráðstefnurnar standa yfir er ekki mikill tími til að sofa en stemningin og fagmennskan sem er gífurleg heldur manni gangandi.  

Síðan ég var kosinn fulltrúi Íslands hjá ESN hef ég ferðast  til margra  Evrópulanda á ráðstefnur. Allt frá Búlgaríu til Finnlands og núna til Póllands. Ég hef tekið þátt í mörgum nefndum, starfshópum og verkefnum og unnið með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og fjölda alþjóðlegra  menntastofnanna.

Áður fyrr vissi ég ekki hvað „Erasmus Student Network“ eða ESN var. Þegar fólk talaði um ESN hugsaði ég um „pop quiz“ og skiptinema að skipuleggja spilakvöld. Ég veit núna að ESN er evrópskt samstarf sem yfir 500 háskólar og 160,000 nemendur taka þátt í.

ESN starfar á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Innanlands er hlutverk ESN að skipuleggja atburði, ferðir og almennt  aðstoða alþjóðlega nemendur. Til dæmis höfum við skipulagt vel sóttar árlegar ferðir í Þórsmörk, skíðaferð til Akureyrar og flúðarsiglingarferð. Einnig bjóðum við skiptinemum okkar uppá allskonar menningarviðburði, eins og prjónaklúbbinn „Super snilld “, umhverfisvæna atburði eins og að búa til eigin kerti, sem og að veita þeim tækifæri til að taka þátt í íslenskum hátíðardögum eins og bolludag eða þorrablóti. Þannig gefum við þeim tækifæri til þess að kynnast samfélaginu og heimamönnum betur.

Á alþjóðlegum vettvangi sér ESN um fjölmargar nefndir, verkefni, „strategíska“ samstarfsaðila, starfsnema prógramm og styrkjar prógrömm. Fulltrúar og sendinefndir frá ESN þjóðunum hittast oft til þess að samræma aðgerðir og greiða atkvæði um ýmis málefni. Höfuðstöðvar ESN eru í Brussel. Þar er fimm manna alþjóðleg stjórn sem er kosinn árlega og hefur fjölda skrifstofa ásamt tenglum sem halda utan um og fylgjast með allri starfsemi ESN.

Í flestum löndum eru háskólar með ESN deildir sem samanstanda af stjórn og fjölda sjálfboðaliða, t.d. er Þýskaland með yfir 30 deildir. Einu sinni á ári senda deildirnar fulltrúa á landsfund til þess að kjósa stjórn fyrir allt landið. Í flestum ESN löndum er samkeppnin í þessar stjórnunarstöður gríðarleg. Í Evrópu er þetta starf vel þekkt og talið mjög flott fyrir ferliskrána.

Þrátt fyrir að Ísland hafi hundruð skipti- og alþjóðlega nemendur, þá hefur því miður oft verið erfitt að fá fólk til þess að taka þátt í starfi ESN. Þetta má líklegast rekja til vanþekkingar um starf ESN og þau tækifæri sem það býður upp á. ESN er stærsta og þekktasta nemendasamtök Evrópu. Metnaðarfullir og áhugasamir nemendur ættu ekki sleppa því tækifæri að taka þátt í þessu áhugaverða starfi.




Skoðun

Sjá meira


×