Erlent

Evrópa hafi vanrækt varnir sínar

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama í Hannover í morgun.
Barack Obama í Hannover í morgun. Vísir/EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kallaði eftir sameinaðri Evrópu gegn popúlisma og efasemdum um Evrópusambandið. Hann sagði Evrópu einnig hafa vanrækt varnir sínar. Obama hélt ræðu í Hannover í Þýskalandi í morgun þar sem hann er í heimsókn.

„Sterk og sameinuð Evrópa er heiminum nauðsynleg,“ sagði forsetinn. Hann bar einnig saman hagsæld dagsins í dag miðað við stríð og erfiðleika síðustu aldar.

Obama viðurkenndi þó að stofnanir Evrópu geti verið „ergjandi“, en sagði að svarið við vandræðum Evrópu væri ekki að beina spjótunum inn á við.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni kallaði Obama eftir auknum varnarburðum þeirra þjóða sem eru í NATO. Hann sagði að hver þjóð ætti að greiða sinn hlut, sem eru tvö prósent af vergri þjóðarframleiðslu, til bandalagsins og sameiginlegra varna. Það væri eitthvað sem einhverjir gerðu ekki alltaf.

AFP bendir á að Þýskaland hefur margsinnis verið gagnrýnt fyrir að standa ekki við þær skuldbindingar til NATO.

Þá nefndi Obama að það væri nauðsynlegt að efla varnir í Póllandi, Rúmeníu og Eystrasaltsríkjunum og jafnvel mæta ógnum við sunnanverða Evrópu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×