Skoðun

Jafnrétti í íþróttum

Hafrún Kristjánsdóttir og Bjarni Már Magnússon skrifar
Vorið markar tímamót í íþróttalífi landsmanna. Vetraríþróttir víkja fyrir sumaríþróttum. Á þeim tímamótum er heppilegt að ljá máls á nokkrum atriðum er tengjast kynjajafnrétti. Eins og þekkt er njóta kynin jafns réttar samkvæmt stjórnarskránni og lögum landsins. Minna þekkt er að íslenska ríkið hefur skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til að tryggja kynjajafnrétti á sviði íþróttamála.

Í g) lið 10. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum – sem Ísland er aðili að – kemur fram að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að afnema mismunun gagnvart konum til að tryggja þeim sömu réttindi og körlum á sviði menntunar og skulu sérstaklega tryggja á grundvelli jafnréttis karla og kvenna sömu tækifæri til þess að taka virkan þátt í íþróttum og líkamsrækt. Í c) lið 13. gr. sama samnings segir að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að afnema mismunun gagnvart konum á öðrum sviðum efnahags- og félagslífs til að tryggja á grundvelli jafnréttis karla og kvenna sömu réttindi, sérstaklega rétt til þess að taka þátt í tómstundastörfum, íþróttum og öllum greinum menningarlífs.

Dr. Bjarni Már Magnússon
Auk samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum hefur íslenska ríkið undirritað yfirlýsingu Evrópuráðsins sem mætti nefna Íþróttasáttmáli Evrópu (European Sports Charter). Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. hans skal engin mismunun á grundvelli kynferðis heimil varðandi aðgang að íþróttaaðstöðu eða íþróttaiðkun. Á Íslandi styrkir ríkið og sveitarfélög íþróttafélög og -sambönd með margvíslegum hætti. Í ljósi innlendrar löggjafar og alþjóðlegra skuldbindinga íslenska ríkisins má ætla að ríkinu beri skylda til að sjá til að fjárútlát til íþróttafélaga og -sambanda séu í samræmi við lög og þau markmið sem ríkið er bundið af. 

Því verður að spyrja hvort ekki sé skynsamlegt að íþróttafélög og -sambönd verði skylduð með lögum til að útskýra hvernig þau ráðstafa opinberum styrkjum með tilliti til kynjajafnréttis. 

Auk þess verður að spyrja hvort ekki sé æskilegt að hið opinbera stöðvi eða hægi á fjárútlátum til íþróttafélaga og -sambanda sem standa sig ekki í jafnréttismálum. Slíkt fyrirkomulag væri í samræmi við lífsspeki hins enskumælandi heims sem segir „put your money where your mouth is“.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. apríl




Skoðun

Sjá meira


×