Erlent

Fjórum flugskeytum skotið á Kilis

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Flugskeytum var skotið á sjúkrahús í bænum fyrr á árinu.
Flugskeytum var skotið á sjúkrahús í bænum fyrr á árinu. Vísir/EPA
Fjórum flugskeytum var skotið á tyrkneska bæinn Kilis nærri landamærum Sýrland í dag. Einn lést og tuttugu og sex slösuðust vegna árásarinnar. Greint er frá þessu á Al-Jazeera.

Tvö flugskeytanna lentu á húsum í fátækrahverfi sem staðsett er nærri miðbæ bæjarins. Þetta var fyrri árásin og slösuðust sextán vegna hennar. Í kjölfarið tóku tyrkneskir hermenn við landamærin að skjóta inn í Sýrland. Síðar um daginn var tveimur flugskeytum til viðbótar skotið á mosku í bænum og slösuðust tíu til viðbótar auk þess sem einn lét lífið. Moskan var staðsett í hundrað metra fjarlægð frá skrifstofu landstjóra þar sem Yalcin Akdogan aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands var á fundi.

„Ég kalla eftir því að borgarar haldi ró sinni,“ sagði Akdogan. „Við munum grípa til viðeigandi aðgerða í þessu máli. Því miður höfum við engin völd handan landamæra okkar.“ Akdogan sagði að tilkynnt yrði hvernig brugðist yrði við þessu eftir ráðuneytisfund á morgun. Kilis hefur legið undir árásum síðastliðnar vikur en bærinn stendur við landamæri þess svæðis Sýrlands sem stjórnað er af ISIL.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×