Erlent

Hillary Clinton hvetur Breta til að halda sig innan Evrópusambandsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Getty
Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hvetur Breta til þess að halda sig innan Evrópusambandsins en kosið verður um framtíð Bretlands í ESB 23. júní í sumar.

Clinton þykir sigurstranglegust til þess að hljóta útnefningu Demókrataflokksins sem forsetaefni flokksins í væntanlegum forsetakosningum. Hún segir að verði hún kosin muni hún vilja að Bretland væri fullgildur meðlimur ESB.

Í yfirlýsingu segir einn af hennar helstu ráðgjöfum, Jake Sullivan, samvinna Bandaríkjanna og Evrópu væri afar mikilvæg og sameinuð Evrópa styrki samvinnunna yfir Atlantshafið. Barack Obama var staddur í opinberri heimsókn í Bretlandi um helgina og lýsti þar yfir að hann myndi vilja að Bretland myndi ekki ganga úr Evrópusambandi og að slík ákvörðun myndi hafa slæm áhrif á Bretland.

Heimildarmenn breska blaðsins The Guardian segja að Clinton styðji þetta sjónarmið Bandaríkjaforseta og deili því með Obama.

Obama var harðlega gagnrýndur af áhrifamönnum innan hreyfingarinnar sem berjast fyrir því að Bretland segir sig úr Evrópusambandinu. Inntakið í gagnrýnni var það að álit Barack Obama skipti engu máli því að hann myndi ekki gegna embætti forseta í langan tíma í viðbót.

Kosið verður í Bretlandi í sumar um hvort að Bretland eigi að vera áfram í ESB eða yfirgefa sambandið. Skoðanakannanir gefa til kynna að afar mjótt er á munum. Samkvæmt nýjustu könnun Financial Times er 44 prósent hlynnt því að halda áfram í ESB en 42 prósent vilja yfirgefa ESB.


Tengdar fréttir

Kallar Obama hálf-kenískan hræsnara

Borgarstjóri Lundúna er ekki hrifinn af afskiptum Bandaríkjaforseta af fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um hvort landið skuli yfirgefa Evrópusambandið. Forsetinn hvetur til sameiningar og segir Bretland sterkara innan sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×