Erlent

Tugþúsundir mótmæltu fríverslunarsamningi í Hannover

Stefán Ó. Jónsson skrifar
"Stöðvið TTIP“ stendur á þessu skilti mótmælenda.
"Stöðvið TTIP“ stendur á þessu skilti mótmælenda. vísir/epa
Að minnsta kosti þrjátíu þúsund manns fjölmenntu í Hannover í dag til að mótmæla fyrirhuguðum fríverslunarsamningi á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Mótmælendur segja að um ólýðræðislegan samning sé að ræða sem eigi eftir að bitna á neytendum og vinnandi fólki.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur barist ötullega fyrir því að samningurinn verði samþykktur. Hann telur að með samningnum verði til milljónir starfa og að viðskipti muni aukast. Hann mun sækja Hannover heim á morgun til að setja stærðarinnar viðskiptaráðstefnu.

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hefur að sama skapi talað máli samningsins en þrátt fyrir það hefur stuðningur almennings við fyrirhugaða undirritun minnkað umtalsvert, eins og fram kemur í frétt Reuters um málið.

Viðræður um samninginn, TTIP, hafa staðið yfir í um þrjú ár en verði hann samþykktur verður til stærsta fríverslunarsvæði í heimi. Andstæðingar hafa lýst yfir efasemdum um samninginn og segja óeðlilega mikla leynd ríkja yfir viðræðunum. Þá óttast þeir að stórfyrirtækjum verði færð of mikil völd með samningnum og að matvælaöryggi verði ábótavant.

Fjölmargir mótmælendanna í Hannover í dag báru skilti sem á stóð „Stöðvið TTIP“ og í samtali við fjölmiðla ytra segja þeir samninginn vera Trójuhest.

Mótmælin í dag voru skipulögð af umhverfissamtökum, mannúðarsamtökum og stjórnmálaflokkum og fóru friðsamlega fram. Þjóðverjar hafa áður mótmælt TTIP, til að mynda í Berlín í október á síðasta ári en þá er talið að um 150 þúsund hafi mótmælt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×