Erlent

Orrustuþota notuð til að bjarga lífi sjúklings

Samúel Karl Ólason skrifar
Orrustuþota af gerðinni F-16.
Orrustuþota af gerðinni F-16. Vísir/EPA
Orrustuþota norska flughersins var nýverið notuð til að bjarga lífi sjúklings. Flugvélin var notuð til að flytja lífsnauðsynlegan búnað á milli sjúkrahúsa á mettíma. Sjúklingurinn, sem staddur var á sjúkrahúsi í Bodo, átti við alvarleg veikindi í lungum að stríða. Sérstakan búnað þurfti til að koma honum til hjálpar en næsta slíka tæki var í um 450 kílómetra fjarlægð í Þrándheimi.

Starfsfólk sjúkrahússins þar hafði samband við flugherinn og vildi svo heppilega til að tvær orrustuþotur af gerðinni F-16 voru tilbúnar til flugtaks.

Í samtali við AFP fréttaveituna segir yfirlæknir sjúkrahússins að fyrsta svarið frá hernum hafi verið spurning um hvað tækið væri stórt. Önnur flugvélin bjó yfir utanáliggjandi geymslurými sem hægt var að nota til að flytja tækið.

Yfirmaður flugsveitarinnar segir að yfirleitt taki flugið á milli Þrándheims og Bodo um 35 mínútur. Í þetta sinn lenti flugvélin þó um 25 mínútum eftir að flogið var af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×