Handbolti

Kiel tapaði óvænt stigi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Vísir/Getty
Kiel tapaði óvænt stigi í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar er liðið gerði jafntefli við Balingen á útivelli, 22-22.

Lærisveinar Alfreðs Gíslarsonar eru með 42 stig, tveimur á eftir toppliði Rhein-Neckar Löwen. Kiel er í þriðja sætinu en Flensburg er í öðru sæti með 43 stig en bæði Kiel og Löwen eiga leik til góða á Flensburg, sem gerði 23-23 jafntefli við Magdeburg í kvöld.

Hannover-Burgdorf vann Eisenach, 37-27, þar sem Rúnar Kárason var markahæstur í fyrrnefnda liðinu með sjö mörk. Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði eitt marka Eisenach í leiknum.

Hannover-Burgdorf er í áttunda sæti deildarinnar með 31 stig en Eisenach er í harðri fallbaráttu - í sextánda sæti af átján liðum með tíu stig.

Í Frakklandi hafði Saint Raphael betur gegn Creteil, 32-29. Arnór Atlason skoraði eitt mark fyrir Saint Raphael í kvöld en liðið er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar og nú með 31 stig. PSG er þegar búið að tryggja sér franska meistaratitilinn.

Þá var spilað í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld. Guif tapaði fyrir Alingsås, 33-26, og er þar með 2-1 undir í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum. Kristján Andrésson er þjálfari Guif.

Ystad vann Malmö, 33-31, eftir tvíframlengdan leik og vítakastskeppni. Ystad vann þar með rimmu liðanna, 3-0, og er komið í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×