Skoðun

Hlusta, ræða, virða, þakka…

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vilborg, mér leiðist svo að tala alltaf um fjölda þeirra sem búa við fátækt og hversu skammarlegt það er í velferðarsamfélaginu okkar að hér séu börn sem eru félagslega einangruð sökum efnaleysis. Er ekki einhver annar flötur á því hvernig við tölum um fátækt og leiðir til að komast út úr henni? Eitthvað sem er uppbyggilegt og sem fólk nennir að lesa?“ spurði ég félagsráðgjafa og umsjónarmann innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar, í leit að efnistökum fyrir þessa grein.

„Jú, skrifaðu um hvað það er mikilvægt að hlusta á það sem fólk sem býr við fátækt er að segja okkur: Að við hlustum og ræðum og reynum að skilja og vinnum síðan með fólkinu út frá aðstæðum þess og á þess forsendum. Þú getur svo líka rætt um það hvað við ráðgjafarnir erum heppnir að fá að standa upp frá skrifborðinu til að vera með fólkinu í verkefnum sem við skipuleggjum saman. Þá upplifum við nefnilega allt aðra hlið á notendum þjónustu okkar heldur en þegar við tökum á móti þeim við skrifborðið þar sem við tölum frekar um það sem miður fer og á bjátar. Það er svo miklu auðveldara að byggja starfið á styrkleika sem við fáum að upplifa þegar við vinnum saman að sjálfstyrkingar- og virkniverkefnum,“ sagði Vilborg.

Meginmarkmið með verkefnunum sem Vilborg talar um er að styrkja sjálfsmyndina og efla þannig getu fólks til að takast á við aðstæður og komast út úr félagslegri einangrun. Við leggjum sérstaka áherslu á að styrkja sjálfsmynd barna og unglinga og auka virkni þeirra og þátttöku í samfélaginu; að sjá til þess að efnislegur skortur takmarki ekki möguleika þeirra til farsæls lífs. Um 250 börn nutu stuðnings Hjálparstarfsins á síðasta starfsári vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs. Og þá er nú komið að markmiðinu með þessum skrifum mínum. Við erum alltaf að safna fé til verkefna okkar og ein leiðin er að selja tækifæriskort í tilefni sumarkomu nú. Þau fást í verslunum Bónuss og í þjónustustöðvum N1 og kosta 1.200 krónur stykkið. Andvirðið fer í ofangreind verkefni. Við erum þakklát fyrir allan stuðning. Gleðilegt sumar!




Skoðun

Sjá meira


×