Skoðun

Um ókosti þess að endurbyggja Kjalveg

Guðmundur Ögmundsson skrifar
Í byrjun apríl var á Alþingi borin fram tillaga til þingsályktunar um endurbyggingu vegarins yfir Kjöl. Þar er kallað eftir því að ríkisstjórnin kanni hagkvæmni og áhrif þess að vegurinn sé endurbyggður í einkaframkvæmd. Faglega unnin könnun ætti að leiða í ljós að framkvæmdin yrði í flesta staði óhagkvæm fyrir náttúru, ferðaþjónustu, byggðaþróun og almenning í landinu.

Hagsmunir náttúru

Sé litið á málið út frá hagsmunum náttúru þá er vaxtartími gróðurs á hálendinu mjög stuttur og jarðvegur óstöðugur. Hálendið þolir illa mikla umferð ferðamanna og í því ljósi er óábyrgt að beina þangað fleiri ferðamönnum undir því yfirskini að létta álagi af láglendinu. Núverandi Kjalvegur verndar náttúru svæðisins því hann takmarkar fjölda ferðamanna á svæðinu. Jafnframt koma færri á jaðartímanum þegar gróður og jarðvegur er hvað viðkvæmastur og varp fugla fer fram. Bættur vegur mun hins vegar fjölga ferðamönnum á svæðinu, bæði á jaðartíma og um hásumar, og hafa þannig neikvæð áhrif á náttúrufar á Kili, langt umfram það sem hlýst af þeim utanvegarakstri sem á sér þar stað í jaðri núverandi vegar.

Hagsmunir ferðaþjónustu

Mögulega má að einhverju leyti koma í veg fyrir neikvæð áhrif á náttúru með mikilli innviðauppbyggingu. Uppbygging innviða er aftur á móti ekki endilega rétta lausnin á Kili. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar þar á vegum Háskóla Íslands sýna að ferðamenn á Kili kæra sig lítið um bætta innviði. Þeir kjósa fámenni og helst enga uppbyggingu, eða þá einfalda uppbyggingu líkt og ferðafélögin á Íslandi hafa staðið fyrir. Með endurbyggingu Kjalvegar og frekari uppbyggingu á helstu áfangastöðum er verið að hrekja þessa ferðamenn í burtu, jafnt innlenda sem erlenda, og auka á einsleitni ferðamanna sem hingað til lands koma, þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar.

Hagsmunir íbúa

Ferðaþjónusta og byggðaþróun haldast líka fast í hendur. Síðastliðið haust kom hingað til lands C. Michael Hall, einn virtasti og afkastamesti fræðimaður á sviði ferðamálafræðinnar. Hann flutti erindi á Ferðamálaþingi og í Háskóla Íslands, og fullyrti í HÍ að ferðaþjónusta væri í eðli sínu svo óumhverfisvæn að það eina sem gæti réttlætt hana væri aukin hagsæld íbúa á þeim svæðum þar sem ferðaþjónustan fer fram.

Það eru hins vegar engir íbúar á hálendi Íslands til að njóta góðs af þeirri ferðaþjónustu sem fer þar fram. Þess í stað þarf að flytja þangað um langan veg öll aðföng og starfsfólk, sem aftur felur í sér mikla óhagkvæmni í rekstri. Það er því augljóst að betra er að skipuleggja ferðaþjónustu á Íslandi þannig að meginþorri ferðamanna sé á láglendinu þar sem þeir stuðla að uppbyggingu innviða, auknu þjónustustigi og aukinni hagsæld fyrir samfélagið.

Hagsmunir almennings

Hálendi Íslands er eitt mesta víðerni Evrópu og það er okkar að standa vörð um að svo verði áfram. Endurbyggður Kjalvegur mun spilla þessu víðerni og rjúfa þann frið sem þar hefur ríkt til heilla ferðamönnum, farfuglum og jafnvel sauðkindum. Það þarf líka að gæta þess að við eigum eitthvað eftir fyrir okkur sjálf. Við erum nú þegar búin að eftirláta ferðaþjónustunni m.a. Þingvelli, Gullfoss og Geysi, en vonandi berum við gæfu til þess að hálendið fari ekki sömu leið.

Því skora ég á Alþingi að tryggja að komandi kynslóðir Íslendinga geti notið töfra hálendisins án þess að þeir þurfi að olnboga sig í gegnum þvögu ferðamanna eða bruna í gegn á 90 km hraða á klukkustund. Ein leið til þess er að friðlýsa hálendið sem víðerni og huga svo að Kjalvegi með hliðsjón af því.




Skoðun

Sjá meira


×