Innlent

Lýsa yfir vonbrigðum vegna fjárveitinga

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hlutfall nemenda á hvern kennara í íslenskum háskólum er mjög hátt að sögn rektors HÍ.
Hlutfall nemenda á hvern kennara í íslenskum háskólum er mjög hátt að sögn rektors HÍ. Vísir/Anton
Það vantar fimmtán til tuttugu milljarða króna inn í háskólakerfið til að ná svokölluðu Norðurlandameðaltali á hvern nemenda á árinu 2020. Þetta er mat Jóns Atla Benediktssonar, formanns samstarfsnefndar háskólastigsins og rektors Háskóla Íslands. Rektorar íslenskra háskóla lýsa yfir gríðarlegum vonbrigðum vegna fjárveitinga til háskóla í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017 til 2021.

Útgjaldarammi til háskólastigs er á bilinu 39,3 milljarðar til 41,8 milljarðar á næstu fimm árum. „Þetta er lágur byrjunarpunktur og allt of lítil aukning milli ára. Mennta- og menningarráðuneytið stefndi að því að ná svokölluðu Norðurlandameðaltali per nemenda á árinu 2021. En þetta er langt frá því, til að ná því þyrfti að fækka verulega nemendum," segir Jón Atli.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli segir þörf á auknu fjármagni vegna þess að nemendahópar séu allt of stórir í háskólum hérlendis, og ekki sé hægt að sinna nemendum nægilega vel. Rannsóknarinnviðir eru einnig gríðarlega veikir eftir mikinn niðurskurð.

„Við höfum verið að rétta úr kútnum á undanförnum árum, en ef við skoðum frá því rétt fyrir hrun þá er það sem greitt er að meðaltali fyrir hvern nemenda fimmtán prósentum lægra í dag. Við teljum það gríðarlega mikilvægt að eitthvað verði gert í þessu, og vonumst til að þessu verði breytt hið allra fyrsta," segir Jón Atli Benediktsson


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×