Erlent

Fjölmargir þingmenn slasaðir eftir slagsmál á þingi í Tyrklandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hart var barist á tyrkneska þinginu í gær.
Hart var barist á tyrkneska þinginu í gær. Vísir/Getty
Það var hart barist á þinginu í Tyrklandi í gær þegar slagsmál brutust út á milli stjórnarþingmanna AK-flokksins og þingmanna í stjórnarandstöðunni sem styðja Kúrda. Fjölmargir þingmenn slösuðust í slagsmálunum.

Slagsmálin brutust út á nefndarfundi þar sem ræða átti breytingar á stjórnarskrá Tyrklands sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Vatni var kastað og höggin flugu en þingmönnum virðist hafa verið afar heitt í hamsi líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Lítill kærleikur er á milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja að fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar séu ætlaðar til þess að koma í veg fyrir mótmæli. Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, segir að þingmenn stjórnarandstöðuflokksins HDP eigi að svara til saka vegna tengsla sinna við Verkamannaflokk Kúrda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×