Skoðun

Jafnrétti á tímum forsetaframboðs

Sólveig Rán Stefánsdóttir skrifar
Þegar ég settist niður til að skrifa þennan pistil ætlaði ég mér ekki að minnast á femínisma, jafnrétti eða sanngirni. Þessi pistill átti að fjalla um forsetaframbjóðendurnar almennt og mína sýn á þá sem ungur kjósandi sem kýs nú í sínum fyrstu forsetakosningum.

 

Svo kveikti ég á útvarpinu á sunnudagsmorgun. Þar heyrði ég helstu stjórnmálakonur landsins tala um það hvernig umfjöllun um forsetakosningarnar væru ósanngjarnar í garð þeirra kvenna sem væru að bjóða sig fram og þá yfirgnæfandi athygli sem fjölmiðlar landsins sýndu þeim karlmönnum sem væru í framboði.

 

Í fyrstu gat ég ekki annað en hlegið og hugsað með mér: Við búum á landi sem er með þeim fremstu í heiminum hvað varðar jafnrétti kynjanna og svo komið þið í útvarp og kvartið yfir því að það sé ójafnrétti í fjölmiðlum?

 

Ég fór því næst inn á helstu fréttaveitur landsins, rétt eins og ég geri flesta morgna og viti menn. Allar helstu fyrirsagnir um forsetaframboðin innihéldu aðeins þrjú nöfn: Davíð, Guðni og Andri. Davíð sagði eitthvað, Guðni gerði eitthvað og Andra datt eitthvað í hug. Um þá þrjá var fjallað um í öllum miðlum landsins. Aðeins ein frétt fjallaði um kvenkyns forsetaframbjóðanda og þar var verið að ræða við Höllu Tómasdóttur um hvernig henni liði með að vera með svona lítið fylgi í skoðanakönnunum.

Hún var ekki spurð að því hvernig nýleg ferð hennar um landið hefði gengið. Þar sem hún fór hringinn og hélt kynningarfundi og talaði við vinnustaði í fjölmörgum bæjum landsins. Hún var ekki spurð að því hvernig hún ætlaði að tækla embættið, hvernig forseti hún vildi vera eða hvaða framtíðarsýn hún hefði. Hún var aðeins spurð út í það neikvæða. Og sú frétt var varla sýnileg á forsíðu miðilsins sem birti hana.

 

Þá tók ég eftir öðru. Fyrir fjórum árum þegar Þóra Arnórsdóttir bauð sig fram þá var hún með næst mesta fylgið í skoðanakönnunum. Þrátt fyrir það voru flestar spurningar sem hún fékk í viðtölum og voru birtar sem fyrirsagnir í fjölmiðlum á borð við:

•    Hvernig ætlarðu að tækla embættið með svona mörg börn?

•    Ertu ekki heldur ung?

•    Fer það ekki illa með ófætt barn þitt að vera í framboði á miðri meðgöngu?

•    Hvernig móðir ertu?

 

Samsvarandi spurningar fyrir karlkyns frambjóðendur í ár væru á borð við:



•    Davíð, ertu ekki orðinn of gamall fyrir þetta djobb?

•    Andri, hvað með feril þinn sem rithöfundur? Ætlarðu að fórna honum fyrir völd?

•    Guðni, áttu ekki of mörg ung börn til þess að geta sinnt embættinu almennilega?

 

Svör við þessum spurningum hef ég ekki ennþá séð í fyrirsögnum.

 

Sem ungur kjósandi að kjósa í mínum fyrstu forsetakosningum finnst mér mikilvægt að þeir forsetaframbjóðendur sem stíga fram séu góðar fyrirmyndir. Mér finnst mikilvægt að þeir séu sem fjölbreyttastir og hafi það markmið að vilja hvetja fólk í landinu áfram og stuðla að sanngirni. Mér finnst mikilvægt að þeir eyði ekki framboðinu sínu í að tala um sjálfa sig og upphefja allt sem þeir hafa gert. Margt annað er hægt að gera við tíma í fjölmiðlum heldur en að þylja upp ferilskrána eins og enginn sé morgundagurinn. Vilji fólk lesa hana, þá er Wikipedia til staðar.

 

Mér finnst mikilvægt að fjölmiðlar fjalli um alla sem eru að bjóða sig fram. Eins leiðinlegt og það er að þurfa að segja það árið 2016, þá finnst mér mikilvægt að báðum kynjum sé gert jafnhátt undir höfði. Svo hefur ekki verið hingað til í þessari kosningabaráttu og það þykir mér leiðinlegt. Mér þykir leiðinlegt að þegar ungt fólk kemur saman og ræðir um komandi kosningar að einungis þrjú nöfn séu nefnd. Og öll þeirra karlar.

 

Það var ekki ætlun mín að láta þennan pistil fjalla um jafnrétti kynjanna. Ég vildi að hann fjallaði um forsetakosningarnar almennt. Ég trúði því að árið 2016 þá þyrfti ekki að hamra á þessu lengur. Að þetta væri bara orðið sjálfsagt mál og allir væru meðvitaðir um mikilvægi þess að gæta jafnréttisins.

Persónulega er ég almennt á móti kynjakvótum. Finnst að þeir einstaklingar sem eru hæfastir eiga að fá sín tækifæri óháð því hvert kyn þeirra er.

 

Ég skora hér með á fjölmiðla landsins að fara yfir sína umfjöllun um forsetakosningarnar. Ég skora á almenning í landinu að spyrja frambjóðendur sömu spurningar og láta kyn þeirra ekki hafa áhrif á hvernig fjallað er um svörin.

Ég skora jafnframt á kjósendur að kynna sér þær mögnuðu konur sem eru í framboði:

Guðrúnu Margréti Pálsdóttur, Höllu Tómasdóttur og Hildi Þórðardóttur.




Skoðun

Sjá meira


×