Skoðun

Bjarni Ben fjármálasnillingur?

Sverrir Björnsson skrifar
Margir hafa spurt sig að því hvort Bjarni Ben sé flinkur í fjármálum. Það er eðlilegt að spurt sé þar sem hann fer með sameiginlegar eignir okkar allra. Gjaldþrota- og afskriftaslóðin eftir Bjarna businessmann vekur ekki sérstaka trú á fjármálahæfni hans sem og takmörkuð vitneskja hans um eigin fjármál: „Ég hef ekki verið með neinar eignir í skattaskjólum.“ BB.

Nú stendur fyrir dyrum sala á hlutum ríkisins í fjölmörgum fyrirtækjum, því er hér spurning til þín, lesandi góður: Ef þú vilt selja nokkur fyrirtæki og fá gott verð fyrir, myndirðu þá tilkynna hátt og snjallt að þú ætlir að selja þau öll í einu í einum grænum hvelli? Er bruna­útsöluleiðin líkleg til að skila þér besta verðinu? „Við vonumst til þess að meginþorra eignanna verði komið í verð fyrir árslok.“ BB.

Ég efast um að snjallir viðskiptamenn stæðu svona að sölu á sínum eignasöfnum. Spor sjálfstæðismanna í einkavæðingu eigna okkar hræða. Ein vinsælasta viðskiptahugmynd auðmanna er að sækja sér auð í eigur almennings. Aðferðirnar eru kunnuglegar; að selja sér ríkisfyrirtæki á undirverði, nýta auðlindir í þjóðareign á tombóluprís og koma einkarekstri inn í almannakerfin. Bjarni Ben hefur sýnt að hann styður þessar auðsöfnunaraðferðir dyggilega, hann vill selja þær eignir sem mala gull fyrir ríkissjóð, Landsvirkjun og Landsbankann. Selur góður búmaður frá sér bestu mjólkurkýrnar?

Nýjasta dæmið um afhendingu almannafjár eru 500 milljarðarnir sem ríkisstjórnin gaf kröfuhöfum í afslátt á stöðugleikaskatti. Icesave-hópurinn hefur bent á að þetta var óþarfa gjafgjörningur sem er þjóðinni afar dýrkeyptur. Ég sé ekki fjármálasnilld Bjarna sem íhaldsmenn eru að reyna að selja okkur. Í fordæmalausu góðærinu gæti ágætlega greindur gjaldkeri rekið ríkissjóð. Kannski er það bara í öflugri gjafastarfsemi á eignum almennings sem „fjármálasnilld“ frjálshyggjuráðherrans liggur. Líkt og Bjarni hafði ekki eftir leiðarstjörnu sinni, Margaret Thatcher á Twitter 1. maí: „ Gallinn við frjálshyggjuna er að á endanum verða engar almannaeignir eftir til að einkavinavæða.“

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×