Erlent

Rússar byggja herstöð við fornu borgina Palmyra

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskir hermenn í Palmyra.
Rússneskir hermenn í Palmyra. Vísir/AFP
Rússneski herinn byggir nú litla herstöð innan friðarsvæðis fornu borgarinnar Palmyra í Sýrlandi. Rústir borgarinnar eru á heimsminjaskrá UNESCO og hafa Rússar ekki beðið þar til gerð yfirvöld um leyfi fyrir byggingunum.

Myndir af byggingunni voru nýverið birtar af American School of Oriental Research Cultural Heritage. Sýrlenski herinn, með aðstoða Rússa, rak vígamenn samtakanna á brott frá Palmyra í mars. Síðan þá hafa gífurlega margar sprengjur sem vígamenn skildu eftir verið aftengdar eða sprengdar.

Maamoun Abdulkarim, yfirmaður fornminja- og safnastofnunar Sýrlands, segir að stofnun hans hafi ekki verið spurð um leyfi fyrir byggingunum. Þó tók hann fram að mikilvægt væri að hermenn væri nálægt borginni fornu, þar sem vígamenn ISIS séu enn á svæðinu.

„Við neitum að gefa slíkt leyfi. Hvort sem væri að ræða lítið herbergi á svæðinu og hvort sem sýrlenski herinn eða sá rússneski myndi biðja um það. Við myndum aldrei veita slíkt leyfi þar sem það brýtur gegn lögum um fornminjar.“

Á þeim tíu mánuðum sem ISIS stjórnaði Palmyra, eyðilögðu þeir hof Bel sem byggt var árið 32, hof Ballshamin og sigurbogann sem byggður var á árunum 193 til 211.

Abdulkarim segir að þegar ástandið batni og friði verði komið á mun stofnun hans fara fram á að herstöðin verði fjarlægð.


Tengdar fréttir

Fjöldagröf finnst í Palmyra

Gröf með um 40 líkum embættismanna og almennra borgara hefur fundist í sýrlensku borginni Palmyra.

Skjöl benda til samvinnu Assads og ISIS

Skjöl sem SKY fréttastofan hefur undir höndum og eru sögð koma frá ISIS vígasveitunum benda til þess að stjórnarher Assads Sýrlsandsforseta og ISIS hafi starfað saman á laun á vígvellinum. Til að mynda virðist stjórnarherinn hafa sæst á að ISIS menn fengu að koma hertólum sínum frá borginni Palmyra áður en Assad náði aftur tökum á henni og þá virðist hafa verið í gangi samningur um að ISIS léti Assad olíu í té í skiptum fyrir áburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×