Innlent

Stálu báðum bílum fjölskyldu í Fossvoginum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Annar bíllinn er svartur Dodge Durango jeppi með númeraplötunni FA-419 og hinn hvítur Volkswagen Touran með nr. KEZ-65.
Annar bíllinn er svartur Dodge Durango jeppi með númeraplötunni FA-419 og hinn hvítur Volkswagen Touran með nr. KEZ-65.
Jóhann Friðrik Haraldsson vaknaði upp við vondan draum í Traðarlandinu í Fossvogsdal í morgun. Báðum bílum fjölskyldunnar hafði verið stolið. Jóhann segir í samtali við Vísi að þjófarnir hafi komist yfir aukalykla að báðum bílum.

„Tengdaforeldrar okkar búa í húsi hérna ská á móti okkur, í raðhúsi með bílskúrsröð,“ segir Jóhann. Brotist haf verið inn í þrjá bílskúra í röðinni en þau hafi geymt hluta af búslóð sinni í bílskúrnum. Þar hafi meðal annars verið að finna kassa með aukalyklum að bílum þeirra.

Greinilegt er að þjófarnir hafa fundið lyklana og farið í það að finna út hvort þeir gengju að bílum í götunni, sem þeir gerðu. 

Náðist á upptöku

„Einn nágranninn er með myndavélakerfi. Þeir sjást keyra um göturnar í leit að bílunum,“ segir Jóhann eðlilega svekktur með upphaf dagsins. Hann segir einn nágranna hafa komið heim klukkan korter í þrjú í nótt og annan hafa vaknað korter yfir þrjú. 

„Þeir sjást keyra í burtu 3:06,“ segir Jóhann sem sá á myndbandsupptökunni bíl sínum ekið í burtu. Ekki var hægt að bera kennsl á fólkið svo ekki liggur fyrir hve margir þjófarnir voru.

Lögregla mætti á vettvang í morgun og tók skýrslur og myndir. Annar bíllinn er svartur Dodge Durango jeppi með númeraplötunni FA-419 og hinn hvítur Volkswagen Touran með nr. KEZ-65. Myndir af sambærilegum bílum fylgja fréttinni. 

Jóhann er með símanúmerið 665-8805 hafi einhver orðið var við bílana. Þá er einnig hægt að láta lögreglu vita í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×