Handbolti

Aron verður lykilmaðurinn í undanúrslitunum gegn Kiel

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Úrslitahelgin í Meistaradeildinni í handbolta, Final Four, fer fram í Köln og hefst á morgun þegar undanúrslitaleikirnir fara fram. Fjögur bestu lið Evrópu eru mætt og berjast um stærsta bikarinn.

Þrjú íslendingalið taka þátt að þessu sinni; Kiel með Alfreð Gíslason í brúnni, Veszprém með Aron Pálmarsson sem sinn besta mann og Paris Saint-Germain þar sem Róbert Gunnarsson spilar.

Stórleikurinn í undanúrslitunum fyrir okkur Íslendinga er viðureign Kiel og Veszprém sem verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 15.50. Allir leikirnir fjórir verða í beinni útsendingu á Sportstöðvunum.

Í leik Kiel og Veszprém mætast Alfreð Gíslason og fyrrverandi lærisveinn hans, Aron Pálmarsson, hjá Veszprém. Alfreð var ekki sáttur þegar Aron yfirgaf Kiel síðasta sumar en liðin voru svo saman í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðin skiptu með sér sigrunum.

Niklas Landin, markvörður Kiel, er maðurinn hjá þýska liðinu sem getur haft hvað mest áhrif á úrslit leiksins en þegar horft er á Kiel-liðið er bent á Aron Pálrsson.

„Íslendingurinn er þaulvanur í úrslitaleikjum. Þegar kemur að stórleikjum þá spilar Aron best. Hann hefur unnið Meistaradeildina tvisvar sinnum og skoraði níu mörk í undanúrslitaleiknum gegn Veszprém í fyrra,“ segir í innslaginu sem má sjá hér að ofan.

„Þegar hann hann er inn á er hann lykilmaður fyrir Ungverjana svo verður hann auðvitað vel stemmdur fyrir leikinn þar sem hann mætir sínu gamla félagi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×