Handbolti

Arnór hafði aftur betur gegn Ásgeiri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Vísir/Stefán
Arnór Atlason og félagar í Saint Raphaël styrktu stöðu sína í öðru sæti frönsku handboltadeildarinnar eftir útisigur í Íslendingaslag í kvöld.

Saint Raphaël vann þá átta marka sigur á Nimes, 36-28 en Nimes er átta sætum neðar í töflunni og því er ekki hægt að segja að þessi úrslit hafi komið mörgum á óvart.

Það hjálpaði heldur ekki heimamönnum í Nimes að liðið leikur þessa dagana án Snorra Steins Guðjónssonar sem meiddist í leik með landsliðinu í byrjun apríl.  

Arnór Atlason var með tvö mörk og tvær stoðsendingar í leiknum en hann nýtti 2 af 4 skotum sínum.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði 4 mörk fyrir Nimes en það dugði skammt. Guillaume Saurina var markahæstur hjá liðinu með átta mörk.

Saint Raphaël var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, en var síðan komið sjö mörk yfir, 23-16 eftir aðeins átta mínútna leik í seinni hálfleik.

Saint Raphaël vamm því báða leikina á móti Nimes í vetur en fyrri leikurinn var jafnari og endaði með 35-33 sigri Saint Raphaël.

Saint Raphaël á ekki lengur möguleika á franska titlinum en París er með ellefu stiga forystu á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×