Skoðun

Verslunin lækkar vöruverð í samræmi við niðurfellingu tolla – Auðvitað

Margrét Sanders skrifar
Um síðustu áramót var tekið stórt skref til eflingar verslunar á Íslandi þegar tollar á fötum og skóm voru afnumdir og ber að þakka stjórnvöldum fyrir framsýnina.

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) fögnuðu auðvitað þessari ákvörðun og var strax farið af stað með verslunum innan samtakanna að undirbúa þessa miklu aðgerð. Gerð var greining á því hversu hátt hlutfall af fötum og skóm bæru nú þegar ekki tolla, s.s. vegna fríverslunarsamninga og annarra milliríkjasamninga, og kom í ljós að um 35% af þessum vörum báru engan toll, þ.e. voru þá þegar tollfrjálsar. Fundað var með verslunareigendum og var mikill hugur í mönnum að sýna og sanna að þessi leið væri hagstæð fyrir neytendur og myndi skila sér í lækkuðu verði á þeim vörum sem enn báru tolla.

Strax fór að bera á því að ákveðnir aðilar voru mjög svo gagnrýnir á þessa ákvörðun stjórnvalda og sögðu beinlínis að verslunin myndi „stela“ þessari niðurfellingu og bar þar hæst skoðun Bændasamtakanna, örfárra þingmanna og einnig heyrðust gagnrýnisraddir frá ASÍ. Þetta kom verulega á óvart þar sem gerðar höfðu verið kannanir sem sýndu að fata- og skóverslun á Íslandi var stöðugt að færast til útlanda og að þessar breytingar myndu einna helst koma tekjulægri einstaklingum til hagsbóta sem kaupa þessar vörur á Íslandi.

Margar verslanir lögðu mikla vinnu í að upplýsa neytendur um verðlækkun og það mátti sjá í fjölda áberandi merkinga verslana þar sem kom fram verð fyrir niðurfellingu tolla og verð eftir niðurfellingu. Þetta framtak er til fyrirmyndar.

Þegar rýnt er í síðustu mælingar Hagstofu Íslands kemur í ljós að um 4% lækkun hefur verið á þessum vörum. Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra sem tollalækkunin grundvallast á var búist við að um 10-13% lækkun yrði á fötum og skóm sem þá báru tolla, það ítrekast að ekki var um að ræða allar vörur því eins og að framan segir þá bar hluti þeirra ekki tolla. Hafa skal hugfast að 4% lækkun er örlítið meiri lækkun en efnahagssvið SA gerði ráð fyrir á þessum tímapunkti sem áhrif af þessum tollalækkunum þar sem litið var m.a. til kostnaðarsamra kjarasamninga og veltuhraða á þessum vörum, eitthvað sem gagnrýnisraddir í garð verslunarinnar hafa einhverra hluta vegna ekki tekið tillit til í sínum útreikningum.

Við hjá SVÞ erum sannfærð um að verðlækkun á fötum og skóm verður meiri. Samkeppnin á þessum markaði er ekki einungis á Íslandi heldur er hún alþjóðleg og því skiptir það okkur öll máli að verð og framboð verði sambærilegt við þau lönd sem við berum okkur saman við. Á móti kemur að aðhald með verslun verður að byggjast á réttum upplýsingum og málefnalegum rökum og ekki sett fram gegn betri vitund enda skaðar slíkt ekki eingöngu innlenda verslun heldur einnig þá aðila sem treysta á þá starfsemi, s.s. starfsfólk. Því vonumst við eftir, með allri auðmýkt, að neytendur og þau samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti treysti okkur þegar við segjum: Verslunin lækkar vörur í samræmi við niðurfellingu tolla – auðvitað.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. maí




Skoðun

Sjá meira


×