Enski boltinn

BBC: Búið að reka Van Gaal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Van Gaal kvaddi með titli.
Van Gaal kvaddi með titli. vísir/getty
Manchester United hefur rekið Louis van Gaal úr starfi knattspyrnustjóra liðsins. Þetta kemur fram á vef BBC.

United hefur ekki enn staðfest fregnirnar en búist er við að félagið sendi frá sér yfirlýsingu um hádegið.

Allt bendir til þess að José Mourinho taki við af Van Gaal en Portúgalinn hefur verið án starfs síðan hann var rekinn frá Chelsea í desember á síðasta ári.

Sjá einnig: Mourinho fékk 728 milljónir fyrir að taka ekki annað starf á meðan United gerði upp hug sinn

Van Gaal stýrði United í síðasta sinn á laugardaginn þegar liðið vann 2-1 sigur á Crystal Palace í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á Wembley.

Van Gaal átti eitt ár eftir af samningi sínum við United en talið er að félagið þurfi að borga honum fimm milljónir punda í starflokagreiðslu.

Van Gaal tók við United sumarið 2014 eftir að hafa stýrt hollenska landsliðinu til 3. sætis á HM í Brasilíu. Á fyrsta tímabilinu undir stjórn Van Gaal endaði United í 4. sæti og hækkaði sig um þrjú sæti frá tímabilinu á undan.

Sjá einnig: Van Gaal njósnaði um leikmenn United sem voru stundum nálægt uppreisn

United endaði í 5. sæti á nýafstöðnu tímabili og tókst ekki að tryggja sér Meistaradeildarsæti sem var líklega banabiti Van Gaals. Þá komst liðið ekki upp úr sínum riðli í Meistaradeildinni og féll úr leik fyrir Liverpool í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×