Skoðun

Absint nugae, absit scurrilitas?…

Guðmundur J. Guðmundsson skrifar
Um miðja 19. öld kom út um nokkurra mánaða skeið í Kaupmannahöfn blað sem hét Tiden. Það sem gerir þetta blað sérstakt er að því ritstýrði Íslendingur, Þorleifur Guðmundsson Repp, og eins og tíðkaðist á þessum tíma skrifaði hann blaðið að mestu upp á eigin spýtur. Umfjöllunarefni blaðsins tengdist líka ritstjóranum nokkuð því það var einkum Repp sjálfur og yfirburðir hans á flestum sviðum. Eins og gefur að skilja þótti Repp lofið gott og skrifaði því ritstjóranum þakkarbréf sem sá síðarnefndi að sjálfsögðu birti í blaðinu. Tiden varð ekki langlíf enda stóðu ekki að baki henni fjársterkir einstaklingar og félög.

Nú á tímum þekkja fáir til Þorleifs Guðmundssonar Repp og þeir sem það gera á annað borð minnast hans einkum fyrir það að hann féll á doktorsprófi við Hafnarháskóla. Repp hafði nefnilega þann skapgerðargalla að þegar hann reiddist setti að honum óstöðvandi tröllahlátur. Þetta nýtti annar andmælandi við doktorsvörnina sér, en sá hafði horn í síðu Repps, og reitti hann því viljandi til reiði með þeim afleiðingum að á Repp rann hláturskast sem engin leið var að hemja. H. C. Ørsted háskólarektor sá sér því ekki annað fært en slíta vörninni og reka hinn hlæjandi Repp út með þessum orðum: „Absint nugae, absit scurrilitas, absit ipse denique scurra,“ sem má útleggja einhvern veginn svona: „Burt með skrípalætin, burt með fíflskapinn, farðu að því búnu sjálft burt fífl.“

Þetta er rifjað upp hér vegna þess að samskipti eins forsetaframbjóðandans við blað það sem hann ritstýrði til skamms tíma minna óneitanlega nokkuð á samskipti þeirra Repps og ritstjóra Tiden. Þar að auki er frambjóðandinn sagður svo fyndinn að heilu landsfundirnir bresta í óstöðvandi hrossahlátur þegar hann tekur til máls. Það væri kannski ástæða fyrir kjósendur að hafa orð rektors Hafnarháskóla í huga þann 25. júní næstkomandi þegar þeir standa í kjörklefanum?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 23. maí.




Skoðun

Sjá meira


×