Handbolti

Titilvörn Kiel nánast úr sögunni eftir óvænt tap

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Alfreð Gíslason þarf líklegast að horfa á eftir titlinum til andstæðinganna.
Alfreð Gíslason þarf líklegast að horfa á eftir titlinum til andstæðinganna. Vísir/Getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel töpuðu óvænt 30-29 gegn MT Melsungen á útivelli í þýsku deildinni í handbolta í dag en fyrir vikið er titilvörn Kiel nánast úr sögunni þegar stutt er eftir af tímabilinu.

Eftir sigur Flensburg í gær og Löwen í dag þurfti Kiel á sigri að halda til að eiga von á því að verja titilinn sem Kiel hefur hampað ellefu sinnum á síðustu tólf árum og fjögur ár í röð.

Kiel leiddi 17-14 í hálfleik en heimamenn í Melsungen með Momir Rnic fremstan í flokki náðu að snúa leiknum sér í hag í seinni hálfleik og að knýja fram sigur á lokamínútum leiksins.

Eftir leikinn er Kiel sex stigum frá toppsætinu þegar fjórir leikir eru eftir en Kiel er áfram með þriggja stiga forskot á Melsungen í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Alexander Petersson, Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Rhein-Neckar Löwen náðu hinsvegar toppsætinu á ný af Flensburg með naumum 23-19 sigri á Wetzlar á útivelli.

Kim Ekdahl fór fyrir liði Löwen í dag með fimm mörk en Alexander bætti við tveimur mörkum á meðan Stefán Rafn komst ekki á blað.

Í 2. deildinni siglir Aue lygnan sjó en liðið komst aftur á sigurbrautmeð 24-18 sigri á Rostock í dag eftir tvo tapleiki í röð.

Bjarki Már Gunnarsson var öflugur í varnarleik Aue að vanda en bætti við þremur mörkum í sókninni en Árni Þór Sigtrygsson bætti við tveimur mörkum.

Úrslit dagsins:

Hannover-Burgdorf 28-23 Lemgo

Melsungen 30-29 Kiel

Magdeburg 34-23 Stuttgart

Wetzlar 19-23 Rhein-Neckar Löwen




Fleiri fréttir

Sjá meira


×