Handbolti

Aron ungverskur meistari í fyrstu tilraun

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron fagnar marki með Veszprem.
Aron fagnar marki með Veszprem. Vísir/EPA
Aron Pálmarsson og félagar í Veszprem urðu í dag ungverskir meistarar eftir 26-26 jafntefli gegn Szeged á útivelli en Aron varð því meistari á fyrsta tímabili sínu hjá félaginu.

Vezsprem var með gott forskot á Szeged fyrir leik liðanna eftir að hafa unnið leik liðanna á heimavelli 30-29 á dögunum. Þrátt fyrir það virtust leikmenn Veszprem ekkert ætla að slaka á og leiddu 16-12 í hálfleik.

Szeged náði að jafna metin í seinni hálfleik en Veszprem tókst að halda í stigið sem til þurfti og fögnuðu leikmenn liðsins því titlinum á heimavelli Szeged að leikslokum.

Aron var öflugur í sóknarleiknum með fjögur mörk en Momir Ilic var atkvæðamestur í liði Veszprem með sjö mörk.

Er þetta sjötti meistaratitill Arons á síðustu sjö árum en hann sló á létta strengi á Twitter eftir leikinn og sagðist ætla að enda ferilinn með Íslandsmeistaratitli með FH árið 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×