Skoðun

Reykingar þrefalda áhætt- una á ótímabærum dauða

Gunnar Sigurðsson skrifar
Þriðjudagurinn 31. maí er alþjóðlegi, „dagurinn án tóbaks“. Tilgangur hans er að vekja athygli á skaðsemi tóbaks.

Reykingar hafa farið minnkandi á Íslandi síðasta aldarfjórðunginn. Samkvæmt gögnum frá Embætti landlæknis árið 2014 var reykingatíðni meðal 18 ára og eldri komin niður í 13-15 prósent og 20 prósent meðal miðaldra einstaklinga. En betur má ef duga skal.

Niðurstöður Áhættuþáttakönnunar Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar sýna að þeir sem reykja sígarettur að staðaldri, hafa þrefalda áhættu á því að deyja fyrir 75 ára aldur miðað við þá sem aldrei hafa reykt. Úrtakið náði til um sjö þúsunda karla og kvenna 25 ára og eldri þar sem afdrif hópsins voru könnuð reglulega.

Ótímabær dauðsföll eru þau sem verða fyrir 75 ára aldur. Á árinu 2015 létust 664 Íslendingar á aldrinum 25-74 ára samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Gera má ráð fyrir að 25-30 prósent af þessum látnu einstaklingum hafi reykt og umtalsverður hluti þeirra hafi látist úr reykingatengdum sjúkdómum miðað við þá sem aldrei hafa reykt. Þetta þýðir að um 170 reykingamenn dóu á árinu 2015 sem samsvarar einu dauðsfalli annan hvern dag.

Fyrri niðurstöður Hjartaverndar eru samhljóða nýlegum tölum frá stórri rannsókn í Bandaríkjum sem sýnir að ævilíkur þeirra sem reykja að staðaldri eru að minnsta kosti tíu árum skemmri en þeirra sem aldrei hafa reykt. Jafnframt sýna tölurnar að með því að hætta að reykja fyrir fertugt er hægt að koma í veg fyrir þessa áhættu að mestu. Afleiðingar reykinga koma fram í mörgum líffærum svo sem í hjarta- og æðasjúkdómum, langvinnum lungnasjúkdómum og lungnakrabbameini og fleiri tegundum krabbameina. Reykingar valda því ekki aðeins ótímabærum dauðsföllum heldur eru reykingar ein helsta orsök langvinnra sjúkdóma og vanheilsu í íslensku þjóðfélagi. Skaðsemi tóbaks er óumdeild og það ætti því að vera stefna allra að útrýma þessu eiturefni úr umferð sem allra fyrst. Höfum hugfast að tóbak fengist aldrei viðurkennt fyrir almenna sölu ef það væri fyrst að koma á markað í dag.

Mikilvægt er að hafa í huga að aldrei er of seint að hætta, ávinningurinn verður alltaf verulegur.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. maí




Skoðun

Sjá meira


×