Handbolti

Lærði það í Haukum að maður þarf að vera svolítið hrokafullur til að vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson.
Stefán Rafn Sigurmannsson. Vísir/Getty
Stefán Rafn Sigurmannsson endaði feril sinn hjá Rhein-Neckar Löwen með því að verða þýskur meistari í fyrsta sinn en Löwen landaði langþráðum titli um helgina.

„Ég gæti ekki verið glaðari að geta kvatt svona með titli. Ég á eftir að sakna félagsins mikið, á marga góða vini hérna. Það er frábært að geta glaðst með þeim núna," sagði Stefán Rafn Sigurmannsson í viðtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu.

Rhein-Neckar Löwen hefur misst naumlega af Þýskalandsmeistaratitlinum undanfarin tvö tímabil en núna loksins tókst liðinu að vinna. Stefán Rafn skoraði tvö mörk í lokaleiknum þar sem að Rhein-Neckar Löwen vann stórsigur á TuS N-Lübbecke. Löwen endaði einu stigi fyrir ofan Flensburg og varð Þýskalandsmeistari í fyrsta sinn.

Stefán Rafn Sigurmannsson varð þó ekki að verða meistari í fyrsta sinn því hann varð á sínum tíma Íslandsmeistari með Haukum. „Ég er þannig karakter, og lærði það í Haukum, að ef maður ætlar að vinna titla þá verður maður að vera svolítið hrokafullur, og hugsa að maður sé að fara að vinna. Það gerði ég í vetur," sagði Stefán í viðtalinu við Sindra og bætti við:

„Ef einhver í liðinu spurði mig hvort ég héldi að við myndum vinna þennan eða hinn leikinn, þá var ég alltaf mjög sigurviss. En auðvitað voru þetta hörkuleikir og mikil barátta um titilinn, og því mjög jákvætt að við skyldum ná þessu," sagði Stefán Rafn.

„Hlutirnir hafa fallið illa fyrir okkur síðustu tvö ár, með grátlegum hætti, og við eigum skilið að hafa unnið þennan titil núna," sagði Stefán Rafn. Hann mun spila með danska félaginu Aalborg Håndbold á næstu leiktíð en fyrst ætlar hann að reyna að hjálpa íslenska landsliðinu að tryggja sér sæti á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×