Handbolti

Umfjöllun: Þýskaland - Ísland 33-21 | Stórtap í Stuttgart og Ísland úr leik

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arna Sif Pálsdóttir er næstmarkahæst í liði Íslands í undankeppninni.
Arna Sif Pálsdóttir er næstmarkahæst í liði Íslands í undankeppninni. vísir/eyþór
Þjóðverjar rúlluðu yfir íslenska kvennalandsliðið í handknattleik, 33-21, í lokaleik riðlakeppninnar um laust sæti á EM í lok árs. Leikurinn fór fram í Stuttgart og átti íslenska liðið aldrei möguleika í dag. Betri aðilinn hirti því stigin tvö.

Nú er það endanlega ljóst að Ísland verður ekki með á EM síðar á árinu og þarf HSÍ að fara í algjöra naflaskoðun þegar kemur að íslenska kvennalandsliðinu, liðið er engan veginn samkeppnishæft á erlendri grundu.

Leikurinn í dag var síðasti leikur Ágústs Jóhannssonar sem landsliðsþjálfari liðsins og býður ærið verkefni fyrir þann aðila sem tekur við starfinu. Ísland fékk aðeins tvö stig í riðlinum, en Frakkar og Þjóðverjar eru komnir á EM.

Þjóðverjar voru sterkari alveg frá fyrstu mínútu í dag og sást strax í hvað stefndi.

14 útileikmenn Þjóðverja skoruðu í leiknum í dag, sem er með ólíkindum og sýnir hversu mikla breidd liðið er með.

Saskia Lang var atkvæðamest í liði Þjóðverja og skoraði sex mörk en markaskorið dreifðist mjög á milli leikja. Sólveig Lára Kjærnested og Karen Knútsdóttir skoruðu báðar fjögur mörk fyrir Ísland í dag.

Það er ljóst að mikið verkefni er framundan í íslenskum kvennahandknattleik og þarf liðið að fara í algjöra naflaskoðun. Varnarleikur liðsins í dag var í molum og hefði Ísland tapað mun stærra ef Íris Björk hefði ekki varið ágætlega.

Sóknarleikurinn er hugmyndasnauður og endar oftast á erfiðu skoti fyrir utan. Liðið á ekkert erindi á EM í lok árs, það er ekki nægilega gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×