Handbolti

Árni sagði sex í lokaumferðinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lokaumferð þýsku B-deildarinnar í handbolta fór fram í kvöld.

Árni Þór Sigtryggson skoraði sex mörk fyrir Aue sem vann þriggja marka sigur, 32-29, á Neuhausen. Bróðir hans, Rúnar Sigtryggsson, þjálfar liðið.

Bjarki Már Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Aue í leiknum í kvöld og Sveinbjörn Pétursson varði átta skot í markinu. Sigtryggur Rúnarsson lék ekki með Aue vegna meiðsla.

Aue vann síðustu þrjá leiki sína á tímabilinu og endaði í 7. sæti deildarinnar.

Það gekk ekki jafn vel hjá Emsdetten sem tapaði 25-31 fyrir Hamm-Westfalen á heimavelli.

Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Emsdetten með sjö mörk. Akureyringurinn gerði alls 267 mörk í deildinni í vetur. Aðeins Christian Schäfer, leikmaður Bietigheim-Metterzimmern, gerði fleiri, eða 281 mark.

Anton Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Emsdetten í kvöld en Ernir Hrafn Arnarson lék ekki með liðinu. Emsdetten endaði í 10. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×