Handbolti

Aðeins eitt lið skorað minna en Ísland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku sóknarmennirnir áttu erfitt uppdráttar gegn frönsku vörninni í gær.
Íslensku sóknarmennirnir áttu erfitt uppdráttar gegn frönsku vörninni í gær. vísir/eyþór
Aðeins tvö lið hafa skorað færri mörk en íslenska kvennalandsliðið í handbolta í undankeppni EM 2016.

Ísland steinlá, 16-30, fyrir Frökkum í gær og hefur tapað fjórum af fimm leikjum sínum í undankeppninni.

Sóknarleikurinn hefur verið aðalvandamál íslenska liðsins en aðeins tvö lið hafa gert færri mörk í undankeppninni.

Ísland hefur skorað 91 mark í leikjunum fimm sem er það þriðja minnsta í undankeppninni. Einungis Finnland (71) og Makedónía (74) hafa gert færri.

Makedónar hafa reyndar aðeins leikið fjóra leiki og hafa því gert fleiri mörk að meðaltali í leik (18,5) en Ísland (18,2).

Íslenska liðið hefur aðeins einu sinni skorað meira en 20 mörk í leik í undankeppninni, í 22-21 tapi fyrir Sviss á útivelli.

Karen skoraði sjö af 16 mörkum Íslands gegn Frakklandi.vísir/eyþór
Karen Knútsdóttir er langmarkahæst í íslenska liðinu í undankeppninni með 22 mörk, eða 24,2% af öllum mörkum liðsins. Línumaðurinn Arna Sif Pálsdóttir kemur næst með 12 mörk.

Í samtali við Vísi eftir leikinn gegn Frökkum í gær ræddi Karen um vandamál íslenska liðsins í sóknarleiknum.

„Mér finnst ég alltaf segja það sama eftir leiki, sóknarleikurinn varð okkur að falli. Það er auðvelt að standa í vörn og berjast og markverðirnir okkar eru góðir en við þurfum meiri hraða og snerpu til að geta gert eitthvað í sókninni,“ sagði Karen.

„Við þurfum að draga menn í okkur og vinna stöðuna maður á móti manni en því miður erum við bara langt á eftir þar,“ bætti fyrirliðinn við.

Ísland mætir Þýskalandi í Stuttgart á sunnudaginn í síðasta leik sínum í undankeppninni. Leikurinn er jafnframt sá síðasti hjá íslenska liðinu undir stjórn Ágústs Jóhannssonar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×